Fréttir

07.02.2005

130 skógarbændur í Grænni skógum við LBHÍ

Um 130 skógarbændur eru í námskeiðaröðinni Grænni skógum við Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ), sem hófst upphaflega undir forystu Garðyrkjuskólans á Reykjum. Um er að ræða samstarfsverkefni skólans, Skógræktar ríkisins, Landgræðslu ríkisins, landshlutabundnu skógræktarverkefnanna og Félaga skógarbænda í viðkomandi landsfjórðungi. Grænni skógar eru í gangi á Suðurlandi, Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum. Um er að ræða öflugt skógræktarnám, ætlað fróðleiksfúsum skógarbændum, sem vilja ná hámarksárangri í skógrækt. Námið samanstendur af 17 námskeiðum þar sem 13 eru skyldunámskeið og a.m.k. 2 eru valnámskeið. Námskeiðaröðin spannar þrjú ár. Hvert námskeið tekur tvo daga og er þá yfirleitt kennt frá kl. 16:00 til 19:00 á föstudegi og frá kl. 10:00 til 17:00 á laugardegi. Um helgina var haldið námskeið hjá Grænni skógum á Suðurlandi í húsakynnum LBHÍ á Reykjum. Yfirskrift námskeiðsins var: "Skógarhönnun og landnýtingaráætlanir". Leiðbeinendur voru Elín Heiða Valsdóttir frá Landgræðslunni og Brynjar Skúlason frá Norðurlandsskógum. Næsta námskeið Grænni skóga verður haldið á Höfn í Hornafirði dagana 18. og 19. febrúar.

Heimild: Landbúnaðarháskóli Íslands
banner3