Fréttir

23.01.2005

Greniskógar í Þorskafirði við landnám?

Í meðfylgjandi grein eftir Jochum M. Eggertsson (1896-1978) sem birtist í tímaritinu ?Heima er bezt? árið 1958 skýrir höfundur frá gömlum munnmælum, arfsögnum og örnefnum af heimaslóðum sínum í Þorskafirði, sem hann telur benda til að greniskógur hafi að fornu vaxið þar en verið útrýmt skömmu eftir landnám.

Nánari fróðleik um ævi og störf Jochums er að finna í grein Þorsteins Antonssonar (1984), ?Sjáandinn Jochum M. Eggertsson?,  Andvari 109:81-95. Myndin til vinstri sýnir eyðibýlið að Skógum í Þorskafirði (www.nat.is).

Fróðlegt væri að vita hvort svipuð munnmæli sé að finna víðar að af landinu.  Sjá kort neðst á síðunni.

Aðalsteinn Sigurgeirsson
adalsteinn@skogur.is

Hvaða tré voru það?
Eftir J.M. Eggertsson

Faðir minn Eggert Jochumsson frá Skógum í Þorskafirði var kennari að lífsstarfi. En eftir að hann hættir kennslustörfum var hann síðustu ár ævi sinnar vitavörður að Naustum við Skutulsfjörð (Ísafjörð). Ég ólst ekki upp með foreldrum mínum nema til þriggja ár aldurs. En þegar ég var við 12 ára aldur var ég um tíma í orlofi hjá foreldrum mínum. Móðir mín, síðari kona föður míns, hét Guðrún Kristjánsdóttir frá Ytra-Garðshorni í Svarfaðardal. (Hét áður Grundar-Garðshorn).

Ég hafði snemma yndi af þjóðlegum fróðleik og frásögnum. Man ég enn orðrétt samtöl fólks og frásagnir, er ég heyrði í æsku. Naut faðir minn þessa með mér, að ég var eftirtektarsamur og minnugur. Sagði hann mér margt frá æsku- og uppvaxtarárum sínum í Skógum enda fæddur þar og uppalinn, elzta barn og frumburður hjónanna Þóru Einarsdóttur og Jochums Magnússonar, Magnússonar Halldórssonar Bjarnasonar Jónssonar, er allir höfðu búið í Skógum í beinan karllegg mann fram af manni.

Þau hjón Þóra og Jochum (afi minn og amma) eignuðust 14 börn og var faðir minn elztur, eins og áður er sagt, en Matthías þjóðskáld þriðji í röðinni.

Faðir minn var vinnandi heima í Skógum og fór þaðan ekki fyrr en hálf-þrítugur, að hann gerðist sýsluskrifari hjá Jóni Thoroddsen sýslumanni og skáldi að Haga á Barðaströnd.

Eggert faðir minn sagði mér að Jochum faðir sinn hefði sagt sér, að Magnús faðir hans hefði sagt honum eftir föður sínum Magnúsi Halldórssyni Bjarnasonar, að þegar hann var unglingur að alast upp í Skógum með foreldrum sínum, hefði verið siður að sækja eldgamlar feysknar trjárætur til eldsneytis í hlóðin og farið eftir þeim með reiðingshesta inn í Þorskafjarðarþing í melinn eða holtið Skógamegin við Músará, svonefndan Grenimel eða Greniholt. Höfðu þeir með sér pál og fleiri tæki til að ná upp rótunum, sem ýmist voru á kafi í melnum, eða að nokkru uppblásnar, og litu út til að sjá svipað og hugsa mætti sér veðraðar beinagrindur af fornaldar risa-skrímslum eða kynjadýrum. Flestar voru ræturnar þá svo fúnar að þær loddu ekki saman nema að nokkru. En svo stórir og þungir voru þó sumir heillegustu rótarmolarnir að þeir voru fullkomin klyf á hest ? og þó ekki nema lítill hluti rótarinnar. Töldu þeir af og frá að þar væri um bjarkarrætur að ræða, heldur rætur miklu stórvaxnari trjáa og þá helzt grenitrjáa.

Eftir verksummerkjum, millibili trjárótanna, ummáli þeirra og öðru þvílíku, töldu þeir víst, að stærstu trén þarna í melnum við Músará, hefðu eigi verið minni að hæð og gildleika en grenitré það sem Landnámabók greinir frá, og segir á land komið í Grenitrésnesi utar við fjörðinn.

Faðir minn sagði mér, að fróðir menn í sínu ungdæmi hefðu haft þá skoðun, og haft hana eftir fornum fróðleiksmönnum enn lengra fram, að þetta ?grenitré? ið mikla, sem nesið er kennt við, hafi annað hvort vaxið þar á nesinu sjálfu, ellegar þá við fjörðinn innanverðan í Grenimelnum við Músará í Þorskafjarðarþingi, skammt frá blótstaðnum, þar sem trjáræturnar miklu voru, sem sagt er frá hér að framan. Töldu þeir helzt, að tré þetta, sem Grenitrésnesið heitir eftir, hefði borizt út Músará í vatnavöxtum og fram í fjörðinn undan straumi og útfalli, unz það varð landfast í Grenitrésnesi. Músará er mjög straumhörð og getur orðið ægilega vatnsmikil í vatnavöxtum. Það er hvort tveggja til, að tréð hafi rifnað upp og fallið í Músarárgljúfrin, eða það hafi verið hreinlega fellt og áin í vatnavöxtum látin bera það fram í fjörðinn. Líka getur verið, að um einhvers konar kaup eða viðskipti hafi verið að ræða því landeigendur Skóga og Hallsteinsness voru miklir vinir í þann tíma.

Faðir minn sagði mér, að það hefði verið skoðun gamalla fræðimanna, að bæði greni og fura hafi vaxið á nokkrum stöðum á Vesturlandi um landnámstíð, en þó fremur fágæt og því mjög eftirsótt sem efniviður. Þeim hafi því verið útrýmt með öllu og það mjög fljótlega.

En það er um Grenitrésnes að segja, að það er við langan innfjörð, inn úr sjálfum aðalfirðinum eða flóanum og straumum og aðstöðu allri þann veg háttað, að þar rekur aldrei neitt af hafi. Rekavon og rekalíkur af hafi eru því engar í Grenitrésnesi öðruvísi en að tréð hafi borizt út fjörðinn innan frá, en til þess hefur tréð orðið að vaxa þar við fjörðinn sjálfan.

Gömul sögn er, að fjörðurinn hafi upphaflega verið nefndur Þórskafjörður og hafi Hallsteinn Þórsgoði landnámsmaður gefið firðinum nafnið, er síðar breyttist í framburði í Þorskafjörður, líkt og mannanöfnin Þórsteinn í Þorsteinn, Þórgerður í Þorgerður, Þórkell í Þorkell o.s.frv. En um Hallstein Þórsgoða segir Landnáma (Hauksbók)  eftirfarandi:

?Hallsteinn son Þórólfs Mostrarskeggs nam Þorskafjörð og bjó á Hallsteinsnesi. Hann blótaði þar til þess, að Þórr sendi honum öndvegissúlur. Eftir það kom tré á land hans, það er var sextigi og þriggja álna og tveggja faðma digurt. Það var haft til öndvegissúlna, og eru þar af görvar öndvegissúlur nær á hverjum bæ um þverfjörðuna. Þar heitir nú Grenitrésnes, er tréið kom á land.? (44.kafli)

Hvergi er þess getið að þetta hafi verið venjulegt rekatré komið af hafi.

Rétt undir Grenimelnum í Þorskafjarðarþingi eru svonefndir Blótklettar, og þar sjást enn rústir blóthofsins. Fornar sagnir herma, að þar hafi Hallsteinn fórnað syni sínum svo hann fengi öndvegissúlur. Þetta er eina mannblótið hér á landi sem sögur herma með fullri vissu.

Að forfeður mínir töldu þarna tvímælalaust um grenitré að ræða í Skógalandi í Þorskafjarðarþingi, drógu þeir meðal annars af örnefnunum á þessum slóðum, þar sem trjáræturnar miklu stóðu eftir öldum saman.

Grenimelur eða Greniholt hét staðurinn er trjáræturnar geymdi. En upp af þessum Grenimel eða Greniholti rís Grenibrekka, Grenihvoll og Greniás. Reyndar mætti segja að þessi fornu örnefni þarna séu kennd við melrakka eða tófugreni, en engar líkur eru til þess að þar hafi nokkurn tíma refagreni verið, nema þá undir hinum miklu trjám eða öllu heldur rótum þeirra eins og tíðkast enn í dag í skógum þar sem refir eiga heimkynni. Öll þessi greniörnefni eru nú uppblásin í aur og möl, en í lægðum og víðar má þó enn finna lög af mjög fíngerðri og fallegri gróðurmold.

Fyrir um það bil 2000 árum, eða nokkru fyrir Kristsburð, var hér á landi og annars staðar á Norðurhveli jarðar mikið hlýindatímabil svo ísar leystu, jöklar bráðnuðu og hurfu og sjór hækkaði í höfunum. Minjar sjávarboða frá þessum tíma finnast í kringum allt land. Þá var svo hlýtt að jöklar hafa að mestu eða öllu horfið hér á landi. Heiðar, bæði á Vesturlandi og víðar, sem nú eru naktar og blásnar í aura og mel urðu þá grasi og gróðri vafðar. Þá hafa þessi stórtré sem áður eru nefnd, eða forfeður þeirra, vaxið hér á landi. Vaxtarþroski barrtrjánna er svo miklu meiri og lengri en lauftrjánna t.d. bjarkarinnar, að þeim er sigurinn vís séu skilyrðin jöfn að öðru. Björkin er svo lítið tré og skammlíft í samanburði við barrtrén, - þessa risa skógarins.

Sumir skógræktarmenn og ýmsir aðrir eru vantrúaðir á að barrtré hafi nokkru sinni vaxið hér á landi sem nytjaviður. En þeir sömu ættu að athuga örnefnin betur og svo hitt, að barrtréð verður mörg hundruð ára gamalt og getur staðið um aldir eftir að það er hætt að vaxa. Og svo er enn eitt: Ef barrskógur er gjörhöggvinn eða eyddur, vex hann ekki aftur upp af rótarskotum líkt og björkin.

Og eftir á að hyggja:
Hvað geta fræ barrtrjáa eða önnur trjáafræ geymzt lengi í jökli?

Jochum M. Eggertsson: ?Hvaða tré voru það?? Heima er bezt 8:5 (1958), bls. 155, 178.
banner1