Fréttir

12.05.2005

Hallormsstaðaskógur á frímerki

Skógrækt á Íslandi kemur við sögu á nýju íslensku frímerki sem Íslandspóstur gefur út. Útgáfudagurinn er 13. janúar og er frímerkið gefið út til að minnast þess að 100 ár eru liðin frá því að skipulögð skógrækt hófst á Íslandi.

Á frímerkinu er ljósmynd úr Hallormsstaðaskógi og uppdráttur af skóginum frá 1906. Ljósmyndin er af lerkilundi á Lýsishóli, en þar er að finna Raivola rússalerki sem er eitthvert elsta rússalerki í skóginum. Það kom frá Finnlandi og er eitt fyrsta rússalerki sem Skógrækt ríkisins fékk. Myndina tók Þröstur Eysteinsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar.

Í texta með frímerkinu í Frímerkjafréttum segir: ?Skógrækt hófst fyrir alvöru í Hallormsstaðaskógi fyrir réttum hundrað árum þegar skógarvörður, Stefán Kristjánsson, var ráðinn þangað. Hann hafði lokið skógarvarðarnámi í Danmörku. Alþingi hafði samþykkt lög um friðun Hallormsstaðarskógar 1899 en friðunin dróst í nokkur ár. 1903 samþykkti Alþingi að kaupa Hallormsstaði af kirkjujarðasjóði og losa úr ábúð og hefja þar skógrækt. 1905 var byrjað að girða skóginn af. Skógrækt ríkisins var stofnuð 1907 og var henni afhent jörðin Hallormsstaður með hjáleigum og skógi. Stendur sú skipan enn í dag. Gamla teikningin sem sést í jaðri frímerkisins var gerð árið 1906 af Agner Franciscus Kofoed-Hansen en hann var skógræktarstjóri 1908-1957. (Rétt er að hann var skógræktarstjóri til 1935...innsk.) Í bókinni Íslandsskógum segir að þetta sé: ??uppdráttur Kofoed-Hansens af Hallormsstaðaskógi 1906. Á henni sést vel hversu stórt skóglausa svæðið kringum bæinn og túnin var á þeim tíma og ennfremur út af Ormsstöðum. Markargirðingin sést greinilega og innan hennar gróðrarstöðin fyrsta, sem lítill skástrikaður ferningur.?
banner3