Fréttir

06.01.2005

Af sólskríkjum og reyniviði

Af reyniberjum og snjótittlingum ? Hreinn Óskarsson

Eins og komið hefur víða fram í fjölmiðlum þá eru snjótittlingar notaðir til frædreifingar á reynifræi (sjá t.d. http://land.is/landbunadur/wglgr.nsf/key2/lann67um4y.html ). Eru reyniber hnoðuð saman við tólg og þeim dreift á ógróin svæði. En nú er spurningin hvort þessi hugvitsamlega lausn sem hv. Landbúnaðarráðherra dásamaði í kvöldfréttum á stöð 2 virki yfirleitt. Hafa verið gerðar rannsóknir á þessari aðferð? Líklega ekki.

Skv. fuglafróðum mönnum sem ég hef rætt og rituðum heimildum sem ég hef gluggað í er líklega hætt við að fá reynifræ komist ósködduð í gegn um meltingarkerfi snjótittlinga, en þeir eru líklega eina smáfuglategundin sem dvelur á ógrónu landi um hávetur. Fæðuval snjótittlinga er breytilegt eftir árstíðum. Á veturna eru fræ t.d. mel og grasfræ algengasta fæðan. Í fórarni snjótittlinga eru smásteinar, sýrur og ensími sem melta fræ. Er þetta nauðsynlegt fræætum enda þurfa þær að mylja fræið til að ná orku úr því. Sem dæmi má nefna að snjótittlingar ná auðveldlega að melta kurlaðan maís sem er margfalt stærra fræ en hin örsmáu reynifræ. Reyndar fann Sturla Friðriksson fræ og fræleifar í fóarni snjótittlinga sem hann veiddi í Surtsey vorið 1967. Þar var helst að finna fræ með þykka fræskel sem fuglarnir höfðu borið frá nálægum löndum, og spíraði hluti þeirra (Náttúrufræðingurinn 1969). Sturla kannaði reyndar ekki fræmagn í driti fuglanna heldur aðeins í fóarni.

Annað gildir um skógarþresti sem eru dýra- og jurtaætur, og ekki fræætur. Þeir éta margs konar smáa hryggleysingja, s.s. bjöllur, langfætlur, kóngulær, tvívængjur, fiðrildalirfur, ánamaðka, vatnabobba og landbobba (sbr. Íslenskir fuglar eftir Ævar Petersen). Ber eru sérlega eftirsóknarverð, en þrestirnir eru ekki að sækjast eftir fræinu í berjunum heldur aldinunum / aldinkjötinu. Á haustin sitja skógarþrestir um reynitrén og vilja sumir halda því fram að þeir verji sín tré með kjafti og klóm á haustin. Reyniberin stoppa stutt við í maga þrastanna og skila þeir fræjunum ósködduðum út. Lærðar greinar telja það bæta spírunarmöguleika reyniviðarfræs og vöxt að fara í gegn um þrastamaga. Einnig eru áburðaráhrif fólgin í því þegar fræið blandast við þrastaskítinn. (sjá t.d. http://www.blackwell-synergy.com/links/doi/10.1046/j.1365-2435.2002.00668.x). Árum saman hefur skógræktarfólk vitað af þessu og nýtt sér þresti til frædreifingar. Sem dæmi má nefna að Jón Grettisson sem stundar skógrækt í Skarfanesi í Landsveit komið með berjahrúgu á haustin og sett á ákveðinn stað árvistt síðan 1990. Þrestirnir sækja svo í berin og dreifa fræinu um svæðið. Um 20 árum að þessar tilraunir hófust má víða sjá reynitré teygja sig upp úr kjarrinu í Skarfanesi.

Því má segja að hugmyndin sé hugvitsamleg en ekki er hægt að útiloka að hún sé borin á borð fyrir ranga fuglategund á röngum árstíma. Ekki fæst úr þessu skorið nema með rannsóknum. Til að mynda mætti fanga nokkra tilraunasnjótittlinga og fóðra þá á tólginni. Svo mætti athuga hvort reyniviðir spíruðu upp af driti þeirra. Snjótittlingar eru þó friðaðir og þyrfti að sækja um leyfi fyrir slíkri tilraun. Þó má gera ráð fyrir að refir, minkar, mýs eða hrafnar njóti góðs af tólginni og gætu þessi dýr hugsanlega dreift reynifræjum um ógróin landsvæði.

Betri og einfaldari aðferð sem vitað er að virkar er að tína reyniber að hausti t.d. lok ágúst og fara með þau á svæði þar sem engan reynivið er að finna og láta svo þrestina um afganginn.banner4