Fréttir

06.01.2005

Landbúnaðarráðherra bjartsýnn á framtíð skógræktar

Úr fréttum Stöðvar 2 ("Fuglarnir verði notaðir markvisst", 21. desember 2004)

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra, er bjartsýnn á framtíð skógræktar hér á landi, þrátt fyrir svarta skýrslu Ríkisendurskoðunar um greinina. Guðni vill markvisst nota snjótittlinga til landgræðslu, eins og gert er við Gunnarsholt. Þeir vinna kauplaust og eru glaðir við sína iðju, segir ráðherra.

Mynd: Skógarmálaráðherrar Noregs og Íslands, Lars Sponheim og Guðni Ágústsson, á Þingvöllum s.l. sumar.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um skógrækt hér á landi, er talið tímabært að huga að nýjum skógræktarlögum og skapa heildstæða stefnu um skógvernd og skógrækt á vegum hins opinbera, en núgildandi lög eru frá 1955. Bent er á að áætlanir stjórnvalda, um að klæða 5 prósent láglendis skógi á 40 árum, standist ekki, nema með auknum fjárframlögum. Landbúnaðrráðherra segir skýrsluna gagnlega. Hann segir sumt rétt og margt ágætt í skýrslunni, hins vegar standist það ekki að engin stefna sé í málinu. Enda sé til sérstök löggjöf um hvert einasta verkefni.

Guðni segir að innan landbúnaðarráðuneytisins sé nú unnið að því að samræma landshlutabundnu skógræktarverkefnin í eina heildstæða löggjöf, sem kunni að taka gildi strax næsta vor. Hann telur mikil tækifæri fólgin í skógækt hér á landi í framtíðinni. Hann segir þetta vonandi verða dýrmæta auðlind, bæði sem atvinnugrein og einnig valdi hún því að byggðirnar í landinu styrkist.

Þúsundir snjótittlinga eru nú notaðar til landgræðslu við Gunnarsholt, með því að fóðra þá á tólg, sem blandað hefur verið saman við ber. Þannig bera smáfuglarnir fræin um landið eins og litlar landgræðsluflugvélar. Guðni segir það yndislegt að nota afl fuglanna, sem vinni kauplaust og séu glaðir við sína iðju. Hann segir það vel koma til greina að fara markvisst út í svona aðgerðir.
banner4