Fréttir

10.04.2007

Skógræktin græðir á greni

Að undanförnu hefur staðið yfir söfnun græðlinga af sérstaklega völdum trjám af sitkagreni. Sprotarnir hafa síðan verið græddir á grenitré í pottum. Hugmyndin er að þessi tré fari svo í frægarð sem gefa mun af sér úrvalsfræ þegar fram líða stundir. Græðlingunum hefur verið safnað á höfuðborgarsvæðinu, í Skorradal, Haukadal og á Hallormsstað. Mestu var safnað á höfuðborgarsvæðinu, enda gafst nú gott tækifæri til þess að velja tré sem eru laus við lúsaskemmdir, en slíkar skemmdir eru áberandi á því svæði eins og komið hefur fram á þessari síðu fyrr í vor. Næsta vor verður söfnun haldið áfram, en stefnt er að því að í frægarðinum verði um það bil 200 tré.

Þetta verkefni er hluti af verkefninu Betri tré, sem einnig felur í sér kynbætur á alaskaösp. Erfðalindanefnd Skógræktar ríkisins hefur yfirumsjón með greniverkefninu, en verkefnisstjóri er Halldór Sverrisson.

Á meðfylgjandi mynd má sjá ágræðslumeistarana, Hrafn Óskarsson ræktunarstjóra á Tumastöðum og Þórð Jón Þórðarson aðstoðarskógarvörð á Vesturlandi við ágræðslustörf á Mógilsá.
banner3