Fréttir

07.12.2004

Skógræktarritið 2. tbl. 2004 komið út

Rit Skógræktarfélags Íslands er komið út.

Skógræktarritið er fagrit allra þeirra sem stunda skóg- og trárækt og vilja fylgjast með því sem er efst á baugi.

Ritið á sér sögu sem spannar ríflega 70 ár. Árið 1999 breyttist ritið úr því að vera hefðbundið ársrit og kemur það nú út tvisvar á ári. Er það í takt við mikla grósku í skógrækt á Íslandi.

Seinna hefti Skógræktarritsins árið 2004 er stórglæsilegt, prýtt fjölda fallegra litmynda og á kápu er mynd af málverkinu "Nafnlaust" eftir hinn sérstæða listmálara Eggert Pétursson. Myndin er einnig á nyútkomnu jólakorti sem Skógræktarfélag Íslands gefur út.

Fjölmargar áhugaverðar greinar eru í ritinu:

Sigurður Blöndal, fyrrverandi skógræktarstjóri, á þrjár greinar. Hann ritar um ?Tré ársins 2004? sem er fagurt lerkitré í Seyðisfjarðarkaupstað og 2 greinar í flokknum ?Fyrr og nú?; ?Fyrr og nú í Guðmundarlundi í Vatsnenda, Kópavogi og ?Fyrr og nú á Dömp í landi Jarðlangsstaða á Mýrum vestra.?

Kolbrún Finnsdóttir garðyrkjufræðingur skrifar greinina: ?Liljan í Ásgarði?. Þar er fjallað um ævi og störf Lilju Sigurðardóttur frá Víðivöllum í Skagafirði. Hún kom m.a. upp skrúðgarði á Víðivöllum sem varð landskunnur.

Þá er ítarleg grein eftir dr. Aðalstein Sigurgeirsson, skógerfðafræðing, Einar Gunnarson skógfræðing og Freystein Sigurðsson jarðfræðing um Írlandsferð Skógræktarfélags Íslands árið 2003.

Jóhann Pálsson, fyrrverandi Garðyrkjustjóri í Reykjavík, skrifar greinina ?Gljávíðir. Fyrsta sjálfsáða plantan fundin hér á landi.?

Jóhann Óli Hilmarsson, fuglafræðingur og ljósmyndari og Ólafur Einarsson fuglafræðingur rita áhugaverða grein er nefnist: ? Sárin á landinu - eru þau að gróa? ?Þar er fjallað um framræslu votlendis, endurheimt þess og gildi fyrir fuglalíf.

Björn Jónsson, fyrrverandi skólastjóri Hagaskóla, skrifar greinina "Skógræktarreitur áhugamannsins". Þar segir hann m.a. að "aukaatriðin" í skógræktinni skipti líkas máli, þ.e. gönguleiðir, ökuleiðir og rjóður.

Þröstur Eysteinsson, fagmálastjóri Skógræktar ríkisins, skrifar um ?Bakkaselseinirinn? í Bakkaselsskógi í Fnjóskadal. Hann er líklega hávaxnasti einir á Íslandi, rúmir 2 metrar á hæð og um 60 ára gamall.

Brynjólfur Jónsson, skógfræðingur og ritstjóri Skógræktarritsins, skrifar greinina: ?Af viðum í Borgarfirði?. Þar segir m.a. af ferð greinarhöfundar, um Borgarfjörð s.l. sumar, með séra Geir Waage, sóknarpresti í Reykholti og fleirum, þar sem markmiðið var að finna úrvalseinstaklinga af borgfirsku birki.

Þá er frásögn og ljósmyndir af fyrstu listsýningunni í Hallormsstaðaskógi árið 1995.

Arnór Snorrason skógfræðingur og Bjarki Þór Kjartansson rita greinina ?Íslensk skógarúttekt. Verkefni um landsúttekt á skóglendum á Íslandi. Kynning og fyrstu niðurstöður.? Íslenskri skógarúttekt (ÍSÚ) var hleypt af stokkunum haustið 2001 að frumkvæði Landbúnaðarráðuneytisins. Tryggja á að úttekt sé gerð á öllum skóglendum með vissu árabili þannig að á hverjum tíma séu til uppfærð gögn um skóglendin og hvernig skógarnir breytast frá einum tíma til annars.

Þá er fjallað um aðalfund Skógræktarfélags Íslands í Kópavogi í ágúst s.l.í máli og myndum.

Skógræktarritið er selt í áskrift en einnig í lausasölu á skrifstofu S.Í. að Ránargötu 18. Áskriftar- og heimsendingasími S.Í. er 551 8150, netfang skog@skog.is.

Við hvetjum þig til þess að hafa samband ef þú ert ekki orðinn áskrifandi og kynna þér áskriftartilboð okkar.

Heimild: Heimasíða Skógræktarfélags Íslands, www.skog.is
banner5