Fréttir

15.11.2004

Skógarnir á leið norður

Morgunblaðið, Fréttaskýring, 12. nóvember 2004; Hlýnun loftslags á norðurheimskautssvæðunum


Skógarnir á leið norður

Sífrerasvæðin munu skreppa saman með umtalsverðum áhrifum á dýralíf
Verulegar breytingar verða á gróðurfari á norðurslóðum í kjölfar þeirrar hlýnunar sem vísindamenn spá þar fram til ársins 2090.

Myndin sýnir áætlaðar breytingar á útbreiðslu lagnaðaríss (sea ice), sífrera (permafrost) og trjámarka (treeline) á næstu öld. Heimild: Arctic climate impacta assessment (http://www.amap.no)

Verulegar breytingar verða á gróðurfari á norðurslóðum í kjölfar þeirrar hlýnunar sem vísindamenn spá þar fram til ársins 2090. Í skýrslu norðurskautsráðsins um hlýnun loftslags á norðurslóðum kemur fram að búast megi við að skógar muni víða vaxa þar sem nú er sífreri, gróður verði þéttari og að tré muni vaxa ofar í fjalllendi en nú. Þó er tekið fram að þetta muni gerast á mismunandi tíma á landsvæðunum við norðurskautið; þar sem jarðvegur og aðrar aðstæður eru heppilegar muni þessar breytingar verða orðnar áberandi strax á þessari öld en annars staðar geti þróunin tekið lengri tíma. Þá er og gert ráð fyrir að breytingar á gróðurfari ásamt hækkandi sjávarmáli muni verða til þess að minnka mjög flatarmál sífrerasvæða og það verði minna en það hefur verið undanfarin 21 þúsund ár að minnsta kosti. Þetta mun þýða að uppeldisstöðvar margra fuglategunda skreppa saman og sömuleiðis bithagar dýra sem lifa á opnum hásléttum norðursins. Reyndar í sumum tilvikum það mikið að líkur kunna að vera á að einhverjar þessara dýrategunda deyi út en í öðrum tilvikum munu stofnar væntanlega minnka umtalsvert.


Ekki er einhlítt að gróður þéttist og færist norðar með hlýnandi loftslagi á norðurslóðum. Breytingar á loftslagi hafa áhrif á marga þætti og innbyrðis samspil þeirra og því ekki létt verk að gera langtímaspár. Þannig benda vísindamenn á að sums staðar gætu myndast eyðimerkur eða sandauðnir; með hækkandi hitastigi eykst uppgufun raka og þar sem rakamyndunin nái ekki að halda í við aukna uppgöfun vegna hækkandi hitastigs geti land því þornað og orðið að eyðimörk.


Útbreiðsla skóganna með minnsta móti núna

Terry V. Callaghan, forstjóri við Abisko-vísindarannsóknarstöðina í Svíþjóð, segir að þær breytingar sem spáð er að verði á loftslagi og veðurfari á norðurslóðum séu miklu meiri en menn hafi upplifað a.m.k. síðustu 110 þúsund árin en hann tekur fram að erfitt sé að segja fyrir umhvernig þær muni koma fram á einstökum landsvæðum. "En ef við förum aftur á móti milljónir ára aftur í tímann eru þær hins vegar ekki meiri. Það voru hitabeltisskógar á norðurskautssvæðinu og það er hægt að finna leifar hitabeltisskóga á Grænlandi, Svalbarða og fleiri stöðum við Norðurskautið. Síðustu átta þúsund árin hefur kólnað smám saman á norðurskautssvæðinu og kaldasti tíminn var á litlu ísöldinni sem lauk fyrir rúmum hundrað árum. Mörk skóga hafa verið að færast niður og suður á bóginn þannig að útbreiðsla skóganna er væntanlega með minnsta móti núna sé horft til nokkurra árþúsunda. En nú lítur út fyrir að þessi þróun muni snúast alveg við með hlýnandi veðurfari og skógarnir fari að leita norður á bóginn. En þessar breytingar á loftslagi, sem við spáum, munu ekki bara verða til þess að skógurinn endurheimti þau svæði sem hann hefur misst á síðustu átta þúsund árum heldur mun hann ná miklu norðar og hærra upp."


Keðjuverkun sem eykur hlýnunina enn frekar

Callaghan segir að vissulega geti hlýnunin á norðurslóðum haft jákvæð áhrif en neikvæðu hliðarnar séu margar og stórar. "Eftir því sem skógurinn færist norður verður frjósemi jarðvegarins meiri og þannig skapast mörg ný tækifæri. En," leggur Callaghan áherslu á, "eftir því sem skógurinn tekur að vaxa norðar verður ákveðin keðjuverkun sem verður til þess að það hlýnar enn frekar. Skógurinn gleypir nefnilega í sig miklu meiri geislun og hita. Sífreri eða t.d. heiðarnar á Íslandi eru þaktar snjó á vetrum sem endurkastar geisluninni en gleypir hana ekki í sig en ef þar tækju að vaxa tré sem ná langt upp fyrir yfirborð snjósins taka þau til sín geislun og hita. Þannig að eftir því sem skógurinn hlýnar hækkar hitastig og trén færa sig enn norðar o.s.frv."


Callaghan bendir hins vegar á að þar sem land muni þorna geti staðan orðið sú að tré nái ekki að þrífast þannig að vissulega geti myndast trjálaus svæði sem myndu líkjast sífrerasléttunum sem loðfílar gengu á fyrir um tíu þúsund árum. "Það er mögulegt en kannski ekki mjög líklegt að við gætum upplifað eins konar eyðimerkuráhrif. Ef við lítum t.d. á Ísland, þar sem gróður er víða lítill og hraunyfirborð algengt, gæti hlýnun orðið til þess að landsvæði þornuðu upp."


Callaghan segir að menn hafi einnig áhyggjur af því að eftir því sem skógurinn færist norður á bóginn aukist hættan á skógareldum, skordýraplágum o.s.frv. "Þannig að því fer fjarri að það séu bara góðar fréttir að það hlýni hér á norðurslóðum. Og þá eru líka ótalin áhrif þessarar hlýnunar á ýmsar dýrategundir."


arnorg@mbl.is 

Lesa má nánar um skýrslu nefndar heimskautaráðsins um áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum hér.
banner2