Fréttir

13.10.2004

Ástandið í Kenýa vekur heimsathygli

Friðarverðlaun Nóbels voru veitt Wangari Maathai frá Kenýa eins og fjallað hefur verið um síðustu daga.  Ástandið í heimalandi verðlaunahafans hefur vakið heimsathygli. 

Segja má að það sé meira en hastarlegt áhugamál hjá Maathai að rækta skóg, að vilja vernda skóga og umhverfi almennt.  Skógareyðing ógnar allri velferð landsins og þrífst í skjóli pólitískrar spillingar þar sem svangir bændur höggva eldivið og óheiðarlegir aðilar höggva skóg í von um skjótfengin gróða. 

 Wangari Maathai hefur vakið athygli á mikilvægi skóga, en ekki síður vakið athygli á þeim atriðum sem orsaka skógareyðingu.  Sú spilling að fella skóga eins og gert er í hennar heimalandi segir hún ekki vera eins og að ræna banka, heldur enn verra, að verið sé að ræna nútíðina og framtíðina af öllum gæðum.  Pólitíska spillingin sem Maathai berst gegn hefur viðgengist áratugum saman.  Maathai gagnrýndi fyrrum forseta landsins til 24 ára, Daniel arap Moi, opinberlega.  Undir hans stjórn átti sér stað gífurleg skógareyðing. 

 Skógarnir eru lífæð Kenýa.  Þeir virka sem risavaxnir svampar sem drekka í sig úrkomu og veita henni í ár og læki sem næra landbúnaðarsvæðin sem meirihluti íbúa landsins lifa á.  Þetta á sérstaklega við um nágrenni fjallsins Kenya.  Skóglendi í hlíðum fjallsins og í nágrenni þess er vistkerfi sem er alvarlega ógnað af völdum skógareyðingar, þar eru margar dýrategundir í hættu s.s. fílar, villisvín, vísundar, svartir nashyrningar og margar fleiri.

 Fjallið Kenya (mynd: John Cleare)

Wangari Maathai er aðstoðarumhverfisráðherra og berst einnig á móti marijuanaræktun og hefur ásamt umhverfisráðherranum, Dr. Newton Kulundu, heimsótt skóganna og hvatt fólk til þess að hætta þeirri ræktun, annars verði armur laganna teygður inn í skóganna.  Einnig þurfa yfirvöld í Kenýa að berjast gegn skógareldum sem hljótast af mannavöldum og deilt eru um hverjir eru þar að verki.  Skógareldarnir ógna öllu lífríki og verða talsverðir árekstrar á milli manna og villtra dýra sem flýja heimkynni sín í skóginum vegna eldanna.  Umhverfisráðherrann Kulundu viðurkennir að ef ekki verði gripið til ráða af krafti muni verða gereyðing vistkerfisins í nágrenni fjallsins Kenýa.  Talið er að á síðustu 150 árum hafi 3/4 skóglendis Kenýa verið eytt.
banner4