Fréttir

23.09.2004

Flóð vegna skógareyðingar á Haítí

Fréttir undanfarna daga af flóðum og mörghundruð fórnarlamba þeirra á Haítí eru hörmulegar.  Þarna er mikill mannlegur harmleikur og aðstæður fólks hræðilegar.  Hitabeltisstormur fór yfir eyjuna Hispaniola en á eynni er að finna annarsvegar Haítí og Dóminíska lýðveldið.  Frétt Morgunblaðsins 22. sept. hljóðar svo:

YFIR 600 manns hafa látið lífið á Haítí af völdum flóða sem hitabeltisstormurinn Jeanne olli þegar hann fór yfir eyjuna Hispaniola um helgina. Embættismenn segja líklegt að tala látinna hækki verulega.

Verst er ástandið í borginni Gonaives, þar sem að minnsta kosti 500 manns hafa látið lífið, þar af fjöldi barna. Um 80% borgarinnar voru undir vatni. Að minnsta kosti 56 manns týndu lífi í borginni Port-de-Paix og sautján í nágrannabænum Terre Neuve. Um fimmtíu lík hafa fundist í öðrum bæjum, flest þeirra í norðvesturhluta Haítí.

Rauði krossinn á Haítí sagði að yfir þúsund manna væri enn saknað.

Flóð algeng

Jeanne fór yfir Karíbahaf í vikunni sem leið og olli víða usla vegna gífurlegrar úrkomu sem fylgdi storminum. Verst er ástandið á Haítí. Umfangsmikið skógarhögg hefur verið lengi á eynni, aðallega til að framleiða viðarkol, og er nú svo komið að um 90% trjánna hafa verið felld. Þess vegna hefur jarðvegurinn lítið viðnám og aurskriður og flóð eru algeng.

Jeanne magnast

Um 250 þúsund manns búa í Gonaives og þar stóðu íbúar í ökkladjúpri leðju utan við ráðhús borgarinnar þar sem sett hafði verið upp bráðabirgðasjúkraskýli. Gerard Latortue, forsætisráðherra Haítí, fór um flóðasvæðið á sunnudag og lýsti borgina hamfarasvæði og bað um alþjóðlega aðstoð. Jeanne hefur magnast að nýju og náð styrk fellibyls en stefnir út á Atlantshaf og er ólíklegt að óveðrið valdi frekara tjóni á landi. Fellibylurinn Karl og hitabeltisstormurinn Lisa eru nú einnig á Atlantshafi. Um 1.500 manns létu lífið í flóðum við landamæri Haítí og Dóminíska lýðveldisins í maí.?

 

Þarna endurtekur sig harmleikur frá því í vor, en athygli vekur að ástandið er ekki eins slæmt í Dóminíska lýðveldinu og er á Haítí.  Augljóst er að skógareyðingin setur allt umhverfi fólks á Haítí úr skorðum og þess vegna stendur slík ógn af stórrigningum og raun ber vitni.  Á vísindavef NASA er að finna gerfitunglamynd sem segir meira en mörg orð.  Skörp skil eru á milli landamæranna.  Haítí er á vinsti hönd og Dóminíska lýðveldið á þá hægri.

Sjá vefslóð: http://svs.gsfc.nasa.gov/vis/a000000/a002600/a002640/

Sjá fleiri fréttir um eyðimörkina sem skógareyðingin skilur eftir sig: (á ensku)

http://www.planetark.com/dailynewsstory.cfm?newsid=1947&newsdate=18-Dec-1998
banner4