Fréttir

29.04.2016 : Vinna hafin við skipurit nýrrar skógræktarstofnunar

Stýrihópur um sameiningu skógræktarstofnana ríkisins í eina nýja stofnun kom saman á miðvikudag. Haldið var áfram vinnu við stefnuskjal fyrir hina nýju stofnun og þá mælikvarða sem notaðir verða til að meta störf hennar og árangur. Einnig voru lagðar fram fyrstu hugmyndir að mögulegu skipuriti. Fyrsta umræða um lög um nýja skógræktarstofnun er á dagskrá Alþingis í dag.

Lesa meira

29.04.2016 : Árni Bragason verður landgræðslustjóri

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, hefur skipað Árna Bragason í embætti landgræðslustjóra til næstu fimm ára. Árni hefur frá árinu 2010 starfað sem forstjóri Norrænu erfðaauðlindastofnunarinnar, Nordgen í Svíþjóð.

Lesa meira

28.04.2016 : Örugg ávöxtun í skógi

Fjárfesting í skógi gefur örugga ávöxtun til lengri og skemmri tíma að mati sérfræðinga ThinkAdvisor. Kosturinn við timburskóga sem fjárfestingarkost er sveigjanleikinn. Ólíkt öðrum landbúnaðarafurðum má uppskera timbur þegar markaðsverð er hagstætt en láta skóginn bíða þegar verðið er lágt. Loftslagsbreytingar ættu að gera timburskóga að enn betri fjárfestingarkosti frekar en hitt.

Lesa meira

27.04.2016 : Gróðursetningar á degi jarðar

Nokkuð var um að skógræktarfólk brygðist við því kalli að gróðursetja tré á degi jarðar, 22. apríl. Vel viðraði til gróðursetningar um allt land þennan dag og væri gaman ef sú hefð myndi festast í sessi að setja niður tré á þessum alþjóðlega degi sem helgaður er jörðinni. Tré geta gegnt mikilvægu hlutverki við að tryggja framtíð mannsins og annarra lífvera á jörðinni.

Lesa meira

22.04.2016 : Dagur jarðar í dag

Á alþjóðlegum degi jarðar sem er í dag skrifar Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, undir Parísarsamkomulagið um loftslagsmál fyrir Íslands hönd. Hún tekur líka þátt í ráðherrafundi um sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem er haldinn samhliða undirskriftarathöfninni. Skógrækt er meðal 16 verkefna í sóknaráætlun stjórnvalda um aðgerðir í loftslagsmálum. Möguleikar Íslands til kolefnisbindingar með skógrækt eru miklir

Lesa meira

20.04.2016 : Frumvarp um nýja skógræktarstofnun fari í forgang

Frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra um nýja skógræktarstofnun er meðal þeirra mála sem ráðherrar ríkisstjórnar leggja áherslu á að þingið ljúki áður en gengið verður til kosninga í haust.

Lesa meira

19.04.2016 : Fyrsta ráðstefna HealGenCAR

Trjákynbætur sem efli mótstöðuafl trjáa verða meginviðfangsefni fyrstu ráðstefnu HealGenCAR sem haldin verður 7.-9. júní í Punkaharju í Finnlandi. HealGenCAR er samstarfsvettvangur um framhaldsrann­sóknir í skógarheilsu- og skóg­erfða­fræð­um til stuðnings líf­hagkerf­inu. Samstarfið nýtur stuðnings SNS, sem er samnorræn stofnun um skógrækt og skógarrannsóknir.

Lesa meira

18.04.2016 : Lífræn innistæða þarf viðhald og nýtingu

„Skógar rétt eins og fiskimiðin eru auðlind, lífræn innistæða sem þarf í senn að viðhalda og nýta skynsamlega,“ segir Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri meðal annars í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Eftir rúman áratug fari skógarbændur að fá tekjur af skógum sínum sem munar um. Hann vonast líka til þess að Parísarráðstefnan verði til þess að skógræktarstarf fái meiri skilning.

Lesa meira

18.04.2016 : Fylla þarf upp í gatið í uppbyggingu skógarauðlindarinnar

Framkvæmdastjóri gróðrarstöðvarinnar Barra í Fellum segist vonast eftir því að framámenn standi við orð sín um kolefnisbindingu og annað þannig að auka þurfi gróðursetninguna á ný og fylla upp í það gat sem hefur myndast í uppbyggingu skógarauðlindarinnar. Fjallað var um starfsemi Barra í Landanum í Sjónvarpinu í gær.

Lesa meira

15.04.2016 : Stefnumótun nýrrar skógræktarstofnunar langt komin

Vinna við stefnumótun nýrrar sameinaðrar skógræktarstofnunar er komin vel á veg. Stýrihópur um sameininguna hittist á fundi í gær og þar var haldið áfram að vinna að stefnumótunarskjali sem ætti að liggja fyrir kringum næstu mánaðamót. Góðar vonir eru bundnar við að þær lagabreytingar sem gera þarf til að sameiningin geti orðið 1. júlí nái fram að ganga á Alþingi.

Lesa meira

15.04.2016 : Forðumst gjaldþrot Gleðibankans

Hringrásir eru eðli lífríkisins á jörðinni. Þar sem framvinda er í snauðum vistkerfum hleður hringrásin smám saman utan á sig og efnin í hringrásinni aukast. Raunverulega má líta á það sem skyldu okkar að viðhalda hringrásum náttúrunnar og þróa leiðir til að nýta úrganginn með hagkvæmum hætti til ræktunar og landbóta. Samráðshópur um lífrænan úrgang berst fyrir framförum í þessum efnum og lokatakmarkið er að allur lífrænn úrgangur komist aftur út í hringrásina.

Lesa meira

15.04.2016 : Mikill áhugi á að nýta skógarfræðslu í skólastarfi

Starfsfólk Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar sótti í síðustu viku tveggja daga námskeið í skógarnytjum og skógaruppeldi. Þátttakendur kváðust hafa mikinn áhuga á að nýta sér þessa nýju reynslu í starfi með börnum, hvort sem væri á leikskólum, grunnskólum eða í frístundastarfi.

Lesa meira

12.04.2016 : Íslenskt kurl til Færeyja

Trjákurl frá Skógrækt ríkisins á Hallorms­stað hefur að undanförnu verið flutt út í nokkrum mæli til Færeyja. Færeyingar nýta kurlið sem undirburð fyrir hross og nú í vikunni fara utan með ferjunni Norrænu um 20 rúmmetrar af lerkikurli. Áform eru um frekari útflutning.

Lesa meira

11.04.2016 : Frumvarp um sameiningu skógræktarstofnana lagt fyrir Alþingi

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur nú lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna nýrrar skógræktarstofnunar. Lagt er til að ný stofnun, Skógræktin, taki við eignum, réttindum og skyldum Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefna í skógrækt frá og með 1. júlí 2016. Ráðningarsamningar starfsmanna færast yfir til nýrrar stofnunar.

Lesa meira

11.04.2016 : Áhugi á verulegri skógrækt á Grundartanga

Faxaflóahafnir hyggjast láta gera úttekt á skógrækt á eignarlandi sínu á Grundartanga við Hvalfjörð. Þar er um 36 hektara asparskógur auk grenis, birkis og fleiri trjátegunda. Tvö stóriðjufyrirtæki hafa hreyft þeirri hugmynd að ráðist verði í verulega skógrækt á Grundartanga.

Lesa meira

08.04.2016 : Veðurvísar árhringjanna

Árhringir trjánna segja okkur mikla sögu. Nýlega voru teknar sneiðar af nokkrum felldum furutrjám eftir grisjun í Daníelslundi í Borgarfirði til greiningar hjá árhringjafræðingi. Trén eru um hálfrar aldar gömul og áhugavert er að bera árhringina saman við veðurfarsgögn. Meðal annars sést vel hvernig þykkt árhringjanna sveiflast með hitafari en sömuleiðis hvenær trén fara fyrir alvöru að vaxa og mynda við.

Lesa meira

07.04.2016 : Göngubrú á Markarfljót eykur aðgengi og öryggi

Ný göngubrú yfir Markarfljót við Húsadal verður 158 metra löng hengibrú. Brúargólfið verður klætt með íslensku greni úr skógum Skógræktar ríkisins. Brúin gerir eitt af vinsælustu ferðamannasvæðum landsins aðgengilegra en einnig öruggara því brúin verður flóttaleið ef rýma þarf svæðið með litlum fyrirvara vegna vatnavaxta eða annarra náttúruhamfara.

Lesa meira

07.04.2016 : Markmið og stefna nýrrar skógarstofnunar að mótast

Á fjórða fundi stýrihóps um sameiningu Skógræktar ríkisins og Landshlutaverkefna í skógrækt var farið yfir fyrstu drög að stefnumótunarskjali fyrir nýja stofnun. Slíkt skjal er forsendan fyrir því að hægt verði að hefja fyrir alvöru mótun skipurits. Bandormur hefur verið afgreiddur í ríkisstjórn og úr þingflokkum framsóknar- og sjálfstæðismanna og liggur nú fyrir Alþingi.
Lesa meira

06.04.2016 : Seljabúskapur hefur verið í Drumbabót

Seljabúskapur virðist hafa verið í Drumbabót á Markarfljótsaurum í Fljótshlíð á 16. eða 17. öld. Fornleifauppgröftur fór þar fram síðastliðið haust og fundust mannvistarleifar sem bentu til þess að sel hefði verið þar. Í Drumbabót eru leifar forns birkiskógar sem talið er að hafi eyðst í hamfaraflóði úr Mýrdalsjökli í kjölfar Kötlugoss laust eftir 800 e.Kr. Morgunblaðið fjallar um málið í dag.

Lesa meira

06.04.2016 : Myndband um Mýrviðarverkefnið

Kvikland ehf., kvikmyndafyrirtæki Hlyns Gauta Sigurðssonar skógfræðings, hefur sent frá sér tíu mínútna langt fræðslumyndband um rannsóknarverkefnið Mýrvið sem unnið er að í Sandlækjarmýri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Í myndbandinu er fylgst með sýnatöku og eftirliti og áhorfendur fræddir um tilgang og markmið rannsóknarinnar.

Lesa meira

04.04.2016 : Tálgun orðin hluti af list- og verkgreinakennslu í skólastarfi

Ávaxtatré og runnar stóðu í blóma um helgina í garðyrkjuskóla LbhÍ að Reykjum í Ölfusi þar sem fram fór námskeið í viðarnytjum og skógarumhirðu undir merkjum verkefnisins Lesið í skóginn. Þátttakendur voru af Ströndum, Reykjavíkursvæðinu, Suðurlandi og víðar að. Umsögn þeirra um námskeiðið og aðstöðuna að Reykjum var mjög jákvæð.

Lesa meira

01.04.2016 : Styrkur til viðarmagnsúttektar á Vesturlandi

Félag skógarbænda á Vesturlandi hlaut í gær 800 þúsund króna styrk frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands til að gera viðarmagnsúttekt á Vesturlandi. Reiknað verður út viðarmagn í öllum ræktuðum skógum á Vesturlandi og gert er ráð fyrir að meistaranemi við Landbúnaðarháskóla Íslands taki þátt í að vinna verkið og birti niðurstöðurnar í lokaritgerð sinni.

Lesa meira

01.04.2016 : Atriði í nýrri Star Wars mynd tekið upp á Mógilsá

Tökur á nýju Star Wars myndinni sem verður númer VIII í röðinni hófust í dag á Mógilsá. Skógurinn ofan við Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá í Kollafirði hefur því verið lokaður almenningi. Skógrækt ríkisins biður fólk að virða þessa lokun en á svæðinu verður mikil öryggisgæsla enda eru þar geymdar eftirlíkingar af geimskutlum og öðrum búnaði sem nýttur verður við tökur myndarinnar. Ekki fæst uppgefið hvort helstu stórstjörnur myndarinnar eru á staðnum.

Lesa meirabanner5