Fréttir

28.12.2015 : Þjórsárdalur

Í Þjórsárdal er að finna fjölsótta ferðamannastaði og þar eru fjölbreyttar göngu- og reiðleiðir, m.a. gönguleiðir sem eru sérhannaðar með aðgengi fatlaðra í huga. Skógrækt ríkisins hefur haft umsjá með skógrækt og uppgræðslu Þjórsárdals í tæplega 80 ár. Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi og framkvæmdastjóri Hekluskóga, skrifar grein í Dagskrána, fréttablað Suðurlands, um sögu dalsins, uppgræðslu þar og skógrækt.

Lesa meira

28.12.2015 : Skógarbóndi býr til pallaefni og parket

Bjarki Jónsson, skógarbóndi á Ytri-Víðivöllum II Fljótsdal, hefur sett á laggirnar sögunarmyllu og afurðastöð fyrir skógarbændur í gömlu fjárhúsunum á bænum. Á jörðinni er töluvert af flettingarhæfu efni úr um 45 ára gömlum lerkiskógum sem komnir eru að annarri grisjun. Uppbygging sem þessi er forsmekkurinn að því sem koma skal vítt og breitt um landið eftir því sem skógarnir vaxa upp. Rætt var við Bjarka í fréttum Sjónvarpsins í gær.

Lesa meira

22.12.2015 : Stór amerísk kastanía fundin í villtum skógum Maine-ríkis

Fundist hefur myndarlegt tré af amerískri kastaníu sem vekur vonir um að rækta megi upp yrki sem hefði mótstöðuafl gegn þeim sveppasjúkdómi sem þurrkaði tegundina að mestu út í náttúrlegum heimkynnum hennar. Þetta myndarlega tré fannst í skógi í vestanverðu Maine-ríki og mun vera það stærsta sem fundist hefur á seinni tímum á þeim slóðum þar sem víðáttumiklir kastaníuskógar uxu á öldum áður.

Lesa meira

22.12.2015 : Vaxa peningar á trjánum?

Ræktun jólatrjáa er áberandi í seinna tölublaði ársins af málgagni Landssamtaka skógareigenda, Við skógareigendur, sem nýlega kom út. Fjallað er um kynbætur á fjallaþin og flokkunarkerfi fyrir jólatré en einnig margvísleg önnur skógarmálefni. Til dæmis spyr Bjarki Þór Kjartansson, sérfræðingur á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá: Vaxa peningar á trjánum?

Lesa meira

21.12.2015 : Nóg að gera í skóginum fyrir jólin

„Við byrj­um að saga niður jóla­tré um miðjan nóv­em­ber og ger­um það áfram al­veg fram að jól­um. Fyrstu jóla­trén sem við fell­um eru stærstu trén, al­veg upp í tíu metra há en þeim er ætlað að standa á torg­um. Þetta árið voru öll þau stóru tek­in á Tuma­stöðum því þau hafa verið höggv­in hér í svo mörg ár, við reyn­um að skipta þessu á milli okk­ar á skóg­rækt­ar­stöðvun­um,“ seg­ir Ní­els Magnús Magnús­son starfsmaður í Hauka­dals­skógi í skemmtilegu viðtali í Morgunblaðinu. Lesa meira

18.12.2015 : Margfalt umhverfisálag af gervijólatrjám en lifandi trjám

Á hverju ári standa margir Íslendingar frammi fyrir þeirri spurningu hvort kaupa eigi lifandi jólatré í stofuna eða láta slag standa og kaupa margnota tré sem enst getur árum saman. Hlýtur það ekki að vera betra fyrir budduna og jafnvel umhverfið líka, jafnvel þótt gervitréð sé úr plasti og framleitt hinum megin á hnettinum? Ekki er allt sem sýnist í þessum efnum. Umhverfisálagið af plasttrjánum er margfalt á við lifandi tré, ekki síst ef lifandi trén eru höggvin í nálægum skógi.

Lesa meira

18.12.2015 : Tímavélin hans Jóns

Skógurinn og tíminn er til umfjöllunar á skógræktarráðstefnu sem haldin verður í Valaskjálf á Egilsstöðum 20. janúar í tilefni af sjötugsafmæli Jóns Loftssonar skógræktarstjóra og starfslokum hans hjá Skógrækt ríkisins. Yfirskrift og dagskrá ráðstefnunnar er sú sama og þeirrar sem fresta þurfti vegna veðurs og ófærðar 2. desember. Skráningu lýkur 11. janúar.

Lesa meira

17.12.2015 : Tíu mítur um jólatré

Alltaf kemur upp umræðan fyrir jólin um hvort betra sé að nota lifandi jólatré eða gervi, hvort sé ábyrgara val gagnvart umhverfi og náttúru. Auðlindasvið Wasington-ríkis í Bandaríkjunum hefur tekið saman skemmtilegan pistil þar sem farið er yfir tíu mítur um þessi mál. Við erum auðvitað ekki hlutlaus hjá Skógrækt ríkisins en bendum á að skylda okkar er samkvæmt lögum að leiðbeina um allt sem að skógrækt og skóggræðslu lýtur.

Lesa meira

16.12.2015 : Vel heppnaður jólamarkaður á Vöglum

Aðsókn að fyrsta jólamarkaðnum sem haldinn hefur verið að Vöglum í Fnjóskadal var framar öllum vonum. Hátt í 400 manns sóttu markaðinn í fallegu vetrarveðri og segir skógarvörðurinn líklegt að þetta verði árlegur viðburður í skóginum á aðventunni framvegis.

Lesa meira

16.12.2015 : Kolefnisfótspor innfluttra jólatrjáa

Árlega flytja Íslendingar inn 45.000 jólatré sem ræktuð eru með mengandi hætti á ökrum í Danmörku. Áætla má að kolefnisfótspor hvers trés sé 3,6 kíló og allra innfluttu trjánna 162 tonn CO2 á ári. Auk þess er alltaf hætta á að með innfluttu trjánum berist meindýr eða sjúkdómar sem valdið gætu usla í skógrækt á Íslandi. Langtímamarkmið Íslendinga ætti að vera að hætta með öllu innflutningi lifandi jólatrjáa.

Lesa meira

16.12.2015 : Styrkir til landgræðsluskógræktar með lúpínu

Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson auglýsir rannsóknastyrki í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu.  Til úthlutunar verða um fjórar milljónir króna. Umsóknum skal skilað eigi síðar en 25. janúar 2016.

Lesa meira

15.12.2015 : Sérblað um jólatré

Í dag kom út sérblað með DV helgað jólatrjám. Þar er fjallað um kynbótastarf það sem unnið er að hjá Skógrækt ríkisins með því markmiði að rækta fjallaþin sem keppt gæti við innfluttan nordmannsþin sem jólatré fyrir Íslendinga. Sagt er frá jólatrjáaskógunum á Laugalandi á Þelamörk og í Heiðmörk ásamt fleiru.

Lesa meira

15.12.2015 : Landhnignunarhlutleysi fyrir 2030

Björn Helgi Barkarson, sérfræðingur á skrifstofu landgæða í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, skrifar grein í Bændablaðið um hvernig Íslendingar geti lagt sitt að mörkum í baráttunni gegn landhnignun í heiminum. Hann segir vanta stefnu um endurheimt landgæða á Íslandi en nú sé verið að endurskoða lög um bæði landgræðslu og skógrækt.

Lesa meira

14.12.2015 : Þröstur Eysteinsson skipaður í embætti skógræktarstjóra

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað Þröst Eysteinsson í embætti skógræktarstjóra til fimm ára. Þröstur hefur frá árinu 2003 starfað sem sviðsstjóri þjóðskóganna hjá Skógrækt ríkisins.

Lesa meira

14.12.2015 : Útvarpið fjallar um blokkir úr timbri

Fjórtán hæða timbúshús var nýverið tekið í notkun í Björgvin í Noregi eins og við sögðum frá hér fyrir helgi á skogur.is.  Þetta er hæsta timburhús heims og er mun umhverfisvænna en hús úr steypu og stáli. Ríkisútvarpið tók fréttina upp og hafði eftir Þresti Eysteinssyni, sviðstjóra þjóðskóganna hjá Skógrækt ríkisins, að íslensku skógarnir myndu gefa nothæft timbur í háhýsi eftir fáeina áratugi. Lesa meira

10.12.2015 : Hæsta timburhús í heimi tekið í notkun

Í gær var tekið í notkun í Björgvin í Noregi hæsta timburhús sem reist hefur verið í heiminum hingað til. Húsið er fjórtán hæðir, grind úr límtré sem tilbúnum einingum er raðað inn í. Heimsmetið stendur þó ekki lengi því ákveðið hefur verið að reisa 20 hæða timburháhýsi í Vancouver í Kanada sem áætlað er að verði tilbúið haustið 2017. Kolefnisfótspor timburhúsa er sáralítið miðað við hús úr stáli og steinsteypu og timburhús geyma í sér kolefnið meðan þau standa.

Lesa meira

10.12.2015 : Vatnsendaskóli í aðventuheimsókn á Mógilsá

Nemendur úr öðrum bekk Vatnsendaskóla komu í aðventuheimsókn á Mógilsá í gær, gengu um skóginn, fræddust um náttúruna og náðu í jólatré fyrir skólann sinn.

Lesa meira

09.12.2015 : Komdu að sækja þér jólatré

Skógrækt ríkisins, skógræktarfélög og fleiri bjóða fólk velkomið í skóga fyrir jólin til að velja sér jólatré og fella sjálft. Þetta er orðið hefð hjá mörgum fjölskyldum og nýtur vaxandi vinsælda. Víða verður líf og fjör í skógum landsins það sem eftir lifir fram að jólum.

Lesa meira

09.12.2015 : Jólamarkaður í Vaglaskógi

Laugardaginn 12. desember verður haldinn jólamarkaður í starfstöð Skógræktar ríkisins í Vaglaskógi frá kl. 13 til 17. Handverksfólk úr Þingeyjarsveit verður með fjölbreyttan varning til sölu. Einnig verður hægt að kaupa jólatré, greinar, arinvið og fleira úr Vaglaskógi. Nemendur úr Stórutjarnarskóla verða með kaffisölu fyrir ferðasjóð nemenda.

Lesa meira

09.12.2015 : Áhugi á innlendum jólatrjám

Nýlega sendu skógarbændur á Austurlandi 350 jólatré til Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Félagið hefur átt bágt með að anna eftirspurn eftir íslenskum jólatrjám. Jólatrjáarækt hjá skógarbændum fer smám saman vaxandi og búast má við því að hlutdeild skógarbænda á jólatrjáamarkaðnum fari vaxandi á komandi árum. En til þess að íslensku trén geti náð stærri hluta kökunnar þurfa neytendur að vera ánægðir með vöruna og þjónustuna á sölustöðum. Ýmis verkefni blasa við jólatrjáabændum í desember en undirbúningur fyrri mánaða er líka mjög mikilvægur.

Lesa meira

09.12.2015 : Einstök tré í Heiðmörk

Af þeim 40.000 jólatrjám sem Íslendingar kaupa á ári, eru aðeins 10.000 íslensk. Hin eru flutt inn. Þetta kom fram í góðri umfjöllun í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöld, 8. desember. Þar var annars vegar fjallað um sölu jólatrjáa og þá nýbreytni Skógræktarfélags Reykjavíkur að hvetja fólk til að fá sér öðruvísi jólatré, svokölluð einstök tré, sem eru óhefðbundin í útliti en þó falleg á sinn hátt. Einnig er rætt um vöxtinn í íslenskum skógum undanfarna áratugi og vaxandi verkefni við grisjun.

Lesa meira

08.12.2015 : 72 m/sek á Hallormsstaðahálsi en 17 í skóginum

Í veðurstöðinni á Hallormsstað mældist mesta hviðan 17 metrar á sekúndu í ofviðrinu sem gekk yfir í gærkvöld og í nótt. Nokkru utan við Hallormsstaðaskóg, á Hallormsstaðahálsi, mældist mesta hviðan hins vegar 72,6 m/sek. Á Höfða, skammt innan við Egilsstaði, hlustaði heimafólk á óveðrið uppi yfir en stóð rólegt í skjóli asparskógarins. Svipaða sögu er að segja frá Selfossi þar sem trjágróður hefur vaxið upp undanfarna áratugi og dregur merkjanlega úr vindi í bænum. Ekki er ólíklegt að trjágróður hafi gert að verkum að tjón í ofviðrinu varð minna en ella hefði orðið.

Lesa meira

04.12.2015 : Drög að frumvarpi til laga um timbur og timburvörur í kynningu

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið  óskar eftir umsögnum um drög að frumvarpi til laga um timbur og timburvörur. Frumvarpið er til innleiðingar á nokkrum ESB reglugerðum er fjalla um markaðssetningu timburs og timburvara á innri markaði EES-svæðisins. Markmið frumvarpsins er að koma í veg fyrir viðskipti með ólöglega höggvinn við og að timbur og timburvörur úr ólöglega höggnum viði sé sett á markað hér á landi.

Lesa meira

04.12.2015 : Börnin á Hvanneyri höggva jólatré

Í morgun komu skólabörn frá Hvanneyri í Skorradal til að finna tré fyrir skólann sinn. Þetta hafa grunnskólabörnin gert undanfarin ár en nú bættust leikskólabörnin við og voru fljót að finna tvö tré til að saga. Skógarvörðurinn á Vesturlandi tók á móti þeim í skóginum á Stóru-Drageyri.

Lesa meira

04.12.2015 : Tillífun sandanna

Gróðurlitlar auðnir blasa við víða á láglendi Íslands og þar binst lítill koltvísýringur. Sumir hafa talið að skógrækt á auðnum væri illmöguleg, en nú hefur verið sýnt fram á hið gagnstæða. Í tilraun á Markarfljótsaurum hefur komið í ljós að 23. ára alaskaösp bindur 9,3 tonn af koltvísýringi árlega á hverjum hektara. Forsendan fyrir þessari miklu bindingu er að lúpína vaxi með öspunum því hún bindur nitur úr andrúmsloftinu.

Lesa meira

03.12.2015 : Þriðjungur ræktanlegs lands jarðar horfið á 40 árum

Heimsbyggðin hefur séð á bak þriðjungi ræktanlegs lands jarðarinnar á síðustu 40 árum fyrir sakir jarðvegsrofs og mengunar. Af þessu gæti leitt hörmungar í heiminum enda sífellt meiri þörf fyrir mat. Snúa verður baki við þeim landbúnaðaraðferðum sem stundaðar hafa verið frá því að tilbúinn áburður kom til sögunnar snemma á 20. öld og koma aftur á eðlilegri hringrás næringarefnanna. Annars getur farið illa fyrir mannkyninu. 5. desember er dagur jarðvegs hjá Sameinuðu þjóðunum.

Lesa meira

03.12.2015 : Fornskógar kældu jörðina

Breskir vísindamenn hafa grafið upp ævaforna steingervinga stórvaxinna skóga á Svalbarða sem þar uxu fyrir nokkur hundruð milljónum ára. Talið er að þegar fyrstu stórvöxnu skógarnir komu til sögunnar á jörðinni hafi þeir bundið svo mikinn koltvísýring að það hafi valdið einhverjum mestu hitabreytingum jörðinni síðustu 400 milljónir ára.

Lesa meira

03.12.2015 : Við munum setja aukið fjármagn í landgræðslu og skógrækt

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að ýmis skref verði tekin hérlendis í loftslagsmálum. Ísland taki þátt í 40% markmiði Evrópulanda og ætli bæði að draga úr losun og auka bindingu. Átak verði gert til að skipta um orkugjafa í samgöngum og skipum og aukið fjármagn sett í landgræðslu, skógrækt og votlendi.

Lesa meira

02.12.2015 : Skógræktarstjóri sjötugur

Jón Loftsson skógræktarstjóri fagnar sjötugsafmæli sínu í dag, 2. desember. Starfsfólk Skógræktar ríkisins óskar honum til hamingju með daginn með skemmtilegum myndum sem birtast í væntanlegu dagatali Skógræktar ríkisins 2016. Stef dagatalsins eru myndir sem sýna tré og skóga fyrr og nú.

Lesa meira

01.12.2015 : Ráðstefnu frestað

Vegna illviðrisins sem nú gengur yfir landið liggur nú fyrir að ráðstefnan „Tímavélin hans Jóns“ sem fara átti fram í Valaskjálf á Egilsstöðum á morgun, miðvikudaginn 2. desember, getur ekki farið fram eins og fyrirhugað hafði verið. Í dag var því ákveðið að fresta ráðstefnunni fram í janúar. Stefnt er að því að dagskráin verði lítið eða ekkert breytt þrátt fyrir frestunina.

Lesa meira

01.12.2015 : Þjóðarleiðtogar segja skóga lykillausn í loftslagsmálum

Á loftslagsráðstefnunni miklu sem hófst í gær í París var haldinn sérstakur skógarmálafundur þar sem leiðtogar sautján skóglendra ríkja úr öllum byggðum heimsálfum gáfu út sameiginlega yfirlýsingu um skóga og loftslagsmál. Ríkin lýsa því yfir að skógar séu lykillausn í loftslagsmálum. Leiðtogarnir ítrekuðu nauðsyn þess að gripið yrði til virkra aðgerða til réttlátrar efnahagsþróunar í dreifbýli um leið og eyðing skóga yrði stöðvuð og endurreisn skóglendis efld að mun.

Lesa meirabanner4