Fréttir

26.11.2015 : Fuglar í skógi

Sverrir Thorstensen fuglamerkingamaður talar um fugla í skógum á fyrsta fræðslufundi vetrarins í Gömlu-Gróðrarstöðinni á Akureyri. Fundurinn verður á morgun, föstudaginn 27. nóvember, kl. 10. Í erindi sínu sýnir Sverrir myndir Eyþórs Inga Jónssonar, organista og fuglaáhugamanns, og ræðir um áhrif skógræktar á fuglalífið á Íslandi, um fuglamerkingar og fleira.

Lesa meira

26.11.2015 : Afurðamiðstöð viðarafurða á Austurlandi

Félag skógarbænda á Austurlandi stendur fyrir opnum kynningarfundi þriðjudaginn 1. desember kl. 20 á Hótel Héraði Egilsstöðum. Þar verður rætt um stofnun afurðamiðastöðvar viðarafurða á Austurlandi. Fundurinn er öllum opinn.

Lesa meira

25.11.2015 : Sextán verkefni í sóknaráætlun í loftslagsmálum

Ríkisstjórn Íslands kynnti í dag sóknaráætlun í loftslagsmálum til þriggja ára, sem er ætlað er að skerpa á áherslum Íslands í loftslagsmálum og efla starf í málaflokknum. Áætlunin er byggð á 16 verkefnum sem miða að því að draga úr losun, auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti, styðja alþjóðleg loftslagsverkefni og efla getu stjórnvalda til að takast á við strangari skuldbindingar í loftslagsmálum. Sett verður aukið fé til landgræðslu og skógræktar.

Lesa meira

25.11.2015 : Aukin skógrækt í farvatninu

Í þeim markmiðum sem stjórnvöld vinna nú að í loftslagsmálum felst að auka skógrækt og landgræðslu til að binda koltvísýring og minnka nettólosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Í annarri umræðu fjárlaga sem nú fer fram á Alþingi er gert ráð fyrir 500 milljóna króna aukningu til þessara mála á næsta ári. Stefnt er að því að draga úr nettólosun íslensku útgerðarinnar um 40% fram til 2030 og líklegt er að því verði að verulegu leyti náð með aukinni ræktun.

Lesa meira

18.11.2015 : Framlag skógargeirans til loftslagsmálanna

Í tengslum við stóru loftslagsráðstefnuna í París í byrjun desember stendur evrópska skógastofnunin EFI fyrir ráðstefnu þar sem spurt verður hvað evrópskir skógar og skógargeirinn um allan heim geti lagt til málanna svo ná megi settum markmiðum í loftslagsmálum. Meginspurningin er hvernig heimurinn geti orðið kolefnishlutlaus í orkumálum, framkvæmdum og samgöngum.

Lesa meira

17.11.2015 : Skógræktarritið komið út

Annað tölublað ársins af Skógræktarritinu, riti Skógræktarfélags Íslands, er nýkomið út. Þar er meðal annars fjallað um flokkunarkerfi fyrir jólatré, áhrif loftslagsbreytinga á byggðamynstur og skipulag, Þröstur Eysteinsson skrifar hugleiðingu um mótun vistkerfa og rætt er við skógræktarfrumkvöðulinn Óskar Þór Sigurðsson.

Lesa meira

16.11.2015 : Lota lerkis styttri en áður var talið

Þessa dagana unnið að því að lokafella um helminginn af Jónsskógi á Hallormsstað, 65 ára gömlum reit með síberíulerki af kvæminu Hakaskoja. Viðurinn verður flettur í þykka planka sem notaðir verða í burðarvirki ásatrúarhofs í Öskjuhlíð í Reykjavík. Mælingar sýna að vöxtur í svo gömlum lerkiskógum sé orðinn afar hægur og því orðið hagkvæmt að fella þá. Ræktunarlota lerkis á Íslandi virðist því vera 60 ár en ekki 80 eins og áður hefur verið ætlað.

Lesa meira

13.11.2015 : Vel gengur að gróðursetja í kolefnisskóga Landsvirkjunar

Gróðursetningu er nú lokið á tveimur þeirra þriggja jarða Skógræktar ríkisins þar sem samið var um kolefnisbindingu við Landsvirkjun. Í landi Laxaborgar í Haukadal hefur verið sett niður í 22 hektara og á Belgsá í Fnjóskadal 38,5 hektara. Gróðursetning er einnig komin vel af stað í Skarfanesi á Landi þar sem trjáplöntur eru komnar í tæpa 20 hektara. Landsvirkjun á kolefnisbindingu þessara skóga í fimmtíu ár samkvæmt samningunum.

Lesa meira

11.11.2015 : Frá lofti í við

„Frá lofti í við - áhrif skóga og skógræktar á gróðurhúsalofttegundir“ er yfirskrift erindis sem Arnór Snorrason, skógfræðingur á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, flytur mánudaginn 23. nóvember á fræðslufundi Skógræktarfélags Reykjavíkur og Garðyrkjufélags Íslands. Fundurinn verður í Sal Garðyrkjufélagsins, Síðumúla 1, Reykjavík, og hefst kl. 19.30.

Lesa meira

11.11.2015 : Skógarbændur á Silfrastöðum

Skógfræðingarnir Hrefna Jóhannesdóttir og Johan Holst hafa nú tekið við skógræktarbúinu á Silfrastöðum í Skagafirði þar sem fjölskylda Hrefnu hefur sett niður meira en 1,1 milljón trjáplantna á undanförnum áratugum. Rætt var við þau í þættinum Að norðan á N4 um verkefnin í skóginum, gildi skógræktar og þá möguleika sem felast í skógrækt hérlendis.

Lesa meira

09.11.2015 : Tímavélin hans Jóns

Skógurinn og tíminn er til umfjöllunar á skógræktarráðstefnu sem haldin verður í Valaskjálf á Egilsstöðum 20. janúar í tilefni af sjötugsafmæli Jóns Loftssonar skógræktarstjóra og starfslokum hans hjá Skógrækt ríkisins. Yfirskrift og dagskrá ráðstefnunnar er sú sama og þeirrar sem fresta þurfti vegna veðurs og ófærðar 2. desember. Skráningu á ráðstefnuna lýkur 11. janúar.

Lesa meira

06.11.2015 : Er hið fullkomna birkitré fundið?

Birkifræi var í vikunni safnað af úrvalstrjám í Húsadal á Þórsmörk og Foldum ofan Húsadals þar sem finna má miklar breiður af ungbirki sem þar hefur sáð sér út undanfarna áratugi. Einnig var safnað greinum til ágræðslu sem notaðar verða til undaneldis við frærækt í fræhúsi. Í leiðangrinum fannst birkitré sem heita mátti að væri gallalaust, einstofna og næstum með „fullkomið“ vaxtarform.

Lesa meira

05.11.2015 : Verkefni jólatrjáabóndans í nóvember

Óvenjulega lítið er til af söluhæfum jólatrjám í ár og ólíklegt að hægt verði að anna eftirspurninni eftir íslenskum jólatrjám. Nóvembermánuður er helsti uppskerutíminn hjá þeim sem rækta jólatré. Upplýsingar um jólatrjáaræktun má finna á nýjum jólatrjáavef á skogur.is. Innflutningur ungplantna af nordmannsþin hefur nú verið bannaður en áfram er þó leyfilegt að flytja inn fullvaxin jólatré af tegundinni.

Lesa meira

05.11.2015 : Framkvæmdir hafnar í Laugarvatnsskógi

Framkvæmdir eru nú hafnar á lóð nýs þjónustuhúss í Laugarvatnsskógi. Skógur hefur verið ruddur af byggingarstaðnum og jarðvinna verið boðin út. Stefnt er að því að reisa burðarvirki hússins næsta vor og að þessi nýi áningarstaður verði tilbúinn um haustið. Húsið verður eingöngu smíðað úr íslenskum viði og hæstu trén sem felld hafa verið til að afla viðar í burðarvirkið voru 22 metra há.

Lesa meira

04.11.2015 : Lifandi land

Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi og framkvæmdastjóri Hekluskóga, og Þórunn Pétursdóttir, landgræðsluvistfræðingur hjá Landgræðslu ríkisins, skrifa grein um endurhæfingu gróðurvistkerfa á Íslandi í veglegt rit, Living Land, sem nýkomið er út á vegum UNCCD, eyðimerkursamnings Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn eyðimerkurmyndun. Í ritinu eru tugir frásagna af árangursríkum landbótaverkefnum víðs vegar um heiminn.

Lesa meira

03.11.2015 : Lúpínan sjötug

Morgunblaðið rifjar í dag upp í dálki sínum, „Þetta gerðist“ að hinn 3. nóvember 1945 hafi Hákon Bjarnason, þáverandi skógræktarstjóri, komið heim úr þriggja mánaða ferð til Alaska og haft meðferðis fræ af lúpínu sem óx þar „villt um allt,“ eins og hann sagði í viðtali við blaðið. Þetta muni vera upphaf lúpínuræktar hérlendis.

Lesa meira

03.11.2015 : Skógrækt á Íslandi í hollensku pressunni

Víðlesnasta dagblað Hollands, De Trouw, birti á dögunum viðtal við Aðalstein Sigurgeirsson, forstöðumann Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá, og Björn Guðbrand Jónsson, framkvæmdastjóra samtakanna Gróðurs fyrir fólk. Í viðtalinu er rætt um gróðurfarssögu Íslands frá landnámi og þá skógrækt sem hér hefur verið stunduð í landinu í rúma öld.

Lesa meira

02.11.2015 : Um mikilvægi moldarinnar í borgarvistkerfum

Örfyrirlestraröð á Kaffi Loka í Reykjavík í tilefni af ári jarðvegs 2015 lýkur miðvikudaginn 4. nóvember með því að fjallað verður um mikilvægi moldarinnar í borgarvistkerfum. Augum verður beint að vistkerfum í þéttbýli og fjallað um ýmislegt þeim tengt. Til dæmis verður rætt hvaða áhrif aukinn trjágróður hefur í þéttbýli á t.d. loftgæði, vatnsmiðlun og kolefnisbindingu. Fundurinn stendur í klukkutíma og hefst kl. 12.

Lesa meira

02.11.2015 : Rætt um hagkvæma og umhverfisvæna byggingarkosti 

Sænska sendiráðið og IKEA bjóða til málþings um hagkvæma og umhverfisvæna byggingarkosti í þéttbýli miðvikudaginn 4. nóvember á veitingastað IKEA að Kauptúni 4 í Garðabæ. Húsið verður opnað kl. 8.30 og dagskrá hefst kl. 9.00.

Lesa meira

02.11.2015 : Evrópska skógarvikan Silva 2015 hafin í Sviss

Á evrópsku skógarvikunni, Silva 2015, sem hófst í dag í Engelberg í Sviss, er fjallað um verðmæti skóga frá ýmsum sjónarhornum. Metin verða gildi og verðmæti þeirrar fjölbreytilegu þjónustu sem skógarnir veita og jafnframt að skoða hvað skógarnir geta lagt til græna hagkerfisins.

Lesa meira

02.11.2015 : Hvernig gengur með Forest Europe markmiðin?

Auk viðamikillar skýrslu um ástand skóga Evrópu komu út tvær mikilvægar árangurs- og áfangaskýrslur á sjöunda ráðherrafundi Forest Europe sem haldinn var í Madríd 20.-21. október. Í skýrslum þessum er litið á hvernig gengið hefur að fylgja eftir þeim markmiðum sem ráðherrar skógarmála hafa sett álfunni á fyrri ráðherrafundum Forest Europe.

Lesa meirabanner4