Hekluskógar

Hekluskógar

hekluskogar_logoHugmyndin með Hekluskógaverkefninu er nokkurra ára gömul og er komin frá Úlfi Óskarssyni, skógfræðingi hjá Landgræðslu ríkisins, sem unnið hefur að rannsóknum á ræktun birkis á vikrum í nágrenni Heklu. Vorið 2005 tóku nokkrir aðilar sig saman og skipuðu samstarfshóp til að vinna málinu framgang. Í hópnum eru fulltrúar frá landeigendum á svæðinu, Skógræktarfélagi Rangæinga, Skógræktarfélagi Árnesinga, Landgræðslusjóði, Suðurlandsskógum, Landgræðslu ríkisins og Skógræktinni. Hópurinn vann að undirbúningi ýmissa verkþátta Hekluskóga, þar á meðal gagnaöflun og áætlanagerð.

Áætlað er að rúmlega 90 þúsund ha lands í nágrenni Heklu verði innan Hekluskógasvæðisins, eða nálægt 1% af Íslandi. Um 70% þess lands er nú lítið gróið og á hluta þess er sandfok og mikið rof. Gert er ráð fyrir að verkefnið verði unnið í þremur meginþrepum: (1) sandfok verði stöðvað og illa farið land verði grætt upp til að bæta skilyrði fyrir trjágróður, (2) birki verði gróðursett, ásamt gulvíði og loðvíði í lundi þaðan sem þessar tegundir geta síðan (3) sáð sér út á nokkrum áratugum yfir allt svæðið. Rannsóknir og reynsla hafa sýnt að með uppgræðslu illa farins lands er hægt að skapa góð skilyrði fyrir landnám þessara tegunda. Þannig miða aðgerðir á svæðinu fyrst og fremst að því að örva gróðurframvindu, fremur en að um samfellda ræktun verði að ræða.