Fræðsluefni

Með kunnáttu vex upp góður skógur

Nýta þarf vel það opinbera fé sem lagt er til skógræktar á landinu. Þess vegna er fræðsla mikilvægur þáttur í skóg­ræktarstarfi. Ef skógurinn er ræktaður af kunnáttusemi og natni frá upphafi lifa fleiri tré að vaxa úr grasi, trén verða hraustari og fallegri og skógurinn þar með betri og verðmætari. Afföll eru mest á fyrstu árum eftir gróður­setningu en með því að vanda vel undirbúning lands og val á trjátegundum miðað við aðstæður minnka afföllin að mun.

Ræktand­inn þarf að kunna að velja hverri plöntu réttan stað, standa rétt að áburðargjöf og hirða vel um skóginn frá upphafi. Ekki er mikil fyrirhöfn að klippa tvítoppa á ungum trjám og losna þar með við að trén verði tví- eða marg­stofna og lítils virði þegar þau vaxa upp. Slík umhirða getur borgað sig margfalt þegar fram í sækir. Þá er líka mikil­vægt að gæta vel að skógarplöntunum áður en þær eru settar í jörð, að aldrei þorni á þeim og þær verði ekki fyrir hnjaski í flutningum.

Á þessum fræðsluvef er birt margvíslegt fræðsluefni um nýskógrækt, skógarumhirðu og skógarnytjar. Ábendingar um efni sem ætti heima á þessum vef eru vel þegnar og má senda á netfangið petur@skogur.is. Einnig er vert að benda á Yrkju, fræðsluvef um skógrækt og gróðursetningu, sem hefur að geyma ýmsan fróðleik.