Vistfræði skóga

Starfsmenn ábyrgir fyrir fagsviðinu

Edda S. Oddsdóttir 

Aðrir starfsmenn í verkefnum tengdum fagsviðinu:

Arnór Snorrason, Bjarki Þór Kjartansson, Ólafur Eggertsson og Þorbergur Hjalti Jónsson

Tengiliður í fagráði:

Ása L. Aradóttir, Landbúnaðarháskóla Íslands

Almennt um fagsviðið:

Vistfræði fjallar um samspil lífvera, hver við aðra og við umhverfi sitt. Skógar eru búsvæði margra lífvera og mynda fjölbreytt og flókin vistkerfi sem hafa áhrif langt út fyrir eiginlegt útbreiðslusvæði sitt. Þá veita skógar margvíslega vistþjónustu, s.s. vatnsmiðlun, jarðvegsvernd og kolefnisbindingu. 

Rannsóknir á vistfræði skóga spanna vítt svið, allt frá lýsingu á gerð, eiginleikum og virkni vistkerfa, lífverusamfélaga, tegunda eða stofna og yfir í það að skilja áhrif nýtingar og umhverfisbreytinga á skógana og áhrif þeirra á aðrar landgerðir. Einnig leitast vistfræðirannsóknir við að segja fyrir um hvernig best megi tryggja sjálfbæra nýtingu og líffræðilega fjölbreytni skóganna.

Fagsviðið nær einnig yfir rannsóknir á skógarsögu Íslands með greiningum á frjókornum, fræjum og lurkum í setlögum frá nútíma (síðustu 10.000 árin). Einnig er árhringjavöxtur kannaður í lifandi trjám og runnum með áherslu á breytingar sem átt hafa sér stað á ráðandi umhverfisþáttum, t.d. veðurfari.

Stefnumótun sem tengist fagsviðinu

 • Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni (Sameinuðu þjóðirnar 1992) og stefnumörkun Íslands um framkvæmd þess samnings (Umhverfisráðuneytið 2008).
  Í stefnumörkun Íslands um framkvæmd samningsins er meðal annars fjallað um nauðsyn þess að efla þekkingu á íslensku lífríki og efla fræðslu um líffræðilega fjölbreytni í þjóðgörðum, þjóðskógum og öðrum verndarsvæðum. Einnig að gera eigi áætlun um endurheimt birkiskóga.
 • Skýrsla um vernd og endurheimt birkiskóga (Umhverfisráðuneytið 2007).
  Í skýrslunni er bent á að efla þurfi rannsóknir á líffræðilegri fjölbreytni birkiskóganna, meðal annars til þess að hægt sé að meta verndargildi þeirra. Einnig þurfi að efla rannsóknir á vistþjónustu birkiskóga og áhrif rasks á skógana og starfsemi þeirra.
 • State of biodiversity in the Nordic countries. An assessment of progress towards achieving the target of halting biodiversity loss by 2010 (TemaNord 2009:509).  Litlar upplýsingar eru til staðar um flesta „biodiversity indicators“ fyrir íslensku birkiskógana, þannig að mjög erfitt er að meta ástand þeirra. Lögð er til samræmd vöktun á „biodiversity indicators“ á Norðurlöndunum.
 • Evrópska vatnatiskipunin (The EU Water Framework Directive) mun væntanlega taka gildi á Íslandi á næstu misserum og mun þá hafa áhrif á skipulag skógræktar.
 • Loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna (UN-FCCC). Fullur skilningur á kolefnisbindingu fæst ekki nema með vistkerfisfræðilegum rannsóknum á hringrás kolefnis og samspili þess við aðra umhverfisþætti (vatn, næringarefni) og lífverur.

Hlutverk Mógilsár

Það er hlutverk Mógilsár að afla vísindalegra gagna um vistfræði íslenskra skóga og miðla upplýsingum til stjórnvalda, skipulags- og framkvæmdaraðila, landnotenda og annarra sem þurfa á þeim að halda, einkum hvað varðar eftirfarandi þætti:

 • Eiginleiki, virkni og vistkerfaþjónusta skóganna og áhrif landnýtingar og rask á þessa þætti.
 • Líffræðileg fjölbreytni skóga.
 • Framvinda og ástand birkiskógavistkerfisins og leiðir til endurreisnar þess.
 • Vistfræðilegur grunnur fyrir skilyrðum til nýskógræktar á Íslandi og notkun hermilíkana.
 • Leiðandi rannsóknir á sögu skóga á Íslandi síðustu 10.000 árin.
 • Rannsóknir á áhrifum búsetu á skóga landsins.
 • Rannsóknir á vaxtarsögu elstu náttúruskóga landsins, m.a. með aðferðum árhringjafræðinnar.

Áherslur fagsviðs

 • Vistkerfafræði (Ecosystem ecology): bætta þekkingu á samspili líffræðilegra og ólífrænna þátta á virkni vistkerfa (t.d. framleiðni, vatnsbúskap og næringarefnabúskap).
 • Betri greiningu á vistkerfisþjónustu skóga.
 • Sjálfsáning innfluttra tegunda.
 • Vöktunarrannsóknir: heildstæðar vistkerfisrannsóknir sem taka bæði til lífrænna þátta og virkni og unnar yrðu í rannsóknarsamstarfi við aðrar stofnanir. Hvetja til nýtingar á eldri rannsóknarsvæðum þar sem þegar liggja fyrir mikilvægar upplýsingar
 • Hvetja til birtingar á eldra efni sem tengist vistfræði, t.d. er töluvert til af óbirtu efni um vistfræði birkiskóga.
 • Vistfræði innlendra tegunda sem við lítið hefur verið sinnt, s.s. reyniviður.