Umhirða og afurðir skóga

Starfsmenn ábyrgir fyrir fagsviðinu

Ólafur Eggertsson

Aðrir starfsmenn í verkefnum tengdum fagsviðinu

Þorbergur Hjalti Jónsson og Arnór Snorrason

Tengiliður í fagráði

Björn B. Jónsson, Suðurlandsskógum

Almennt um fagsviðið

Þetta fagsvið fjallar um rannsóknir til þess að bæta ræktun og umhirðu skóga eftir að skógur er kominn á legg. Markmið þeirra er að hámarka aðlögunargetu og verðmæti þeirra með sjálfbærri nýtingu. Með aukinni skógrækt víða um land fellur mikið til af trjáviði við grisjun skóga, og er t.a.m. áætlað að innan 5 ára verði þörf á árlegri grisjun 600 hektara og að úr þeim grisjunum falli árlega til 20-30 þús. rúmmetra af hráviði.

Í skóglendi fólust mikil hlunnindi í búskap á Íslandi allt fram að síðari heimsstyrjöld. Skógurinn gaf eldsneyti, viðarkol, byggingarefni, smíðavið, fóður og gott beitiland og skjól fyrir búfé. Á síðari hluta 19. aldar var búið að ganga mjög hart að flestum skógum landsins.  Eftir að Skógrækt ríkisins var stofnuð og skógarverðir komnir til starfa hófst strax markviss grisjun birkiskóga í þeim löndum sem stofnunin réði yfir. Grisjunarviðurinn fór aðallega í girðingarstaura, eldivið, reykingarvið og gerð viðarkola til smíða. 

Talið er að flatarmál ræktaðra skóga á Íslandi í dag sé um 30.000 hektarar (300 km2). Árlega bætast við þá tölu um 1500 ha af ungskógi. Stór hluti ræktaðra skóga er yngri en 15 ára eða um 70 % af heildarflatarmáli þeirra. Náttúrulegi birkiskógurinn er talin þekja um 1,2 % landsins eða um 120.000 ha (1200 km2), hluti þessa skóglendis er mjög gisinn og stærstur hluti er lágvaxinn,  talið er að 80 % birkiskógarins sé lægri en 2 m.

Árangur af skógrækt á Íslandi undanfarna áratugi sýnir að þar má rækta skóga til fjölþættra nytja. Í nánustu framtíð mun vaxa upp mikil skógarauðlind í landi okkar. Hæstu tré eru komin yfir 20 m og vaxtarhraði margra trjátegunda á láglendi er sambærilegur við það sem þekkist í mið- og norðurhluta Finnlands, Svíþjóðar og Noregs. Með vaxandi skógum verða til verðmæti, í formi viðarafurða, sem skapa ný atvinnutækifæri í dreifðum byggðum. Skógar á Íslandi skapa einnig önnur verðmæti fyrir lífríki og mannlíf sem erfiðara að meta fjárhaglegan ávinning af þar sem þau ganga ekki kaupum og sölum.

Með aukinni skógrækt víða um land fellur mikið til af trjáviði við grisjun skóga. Að jafnaði líða 30–50 ár frá gróðursetningu skógarplantna þar til grisjun hefst og skógurinn gefur af sér timbur.

Á næstu árum mun magn grisjunarviðar aukast mikið víða um land og er talið að eftir tæplega 6 ár (2015) þurfi að grisja um 600 hektara skóglendis árlega. Við þessa grisjun munu falla til um 20-30 þúsund rúmmetrar af hráviði árlega. Þessi tala mun síðan tvöfaldast á næstu 5 árum þar á eftir (2020). Hér er einungis verið að tala um fyrstu grisjun skóga sem gróðursett var til eftir 1985.  Gera má ráð fyrir að lokahögg verði þegar skógurinn hefur náð 60-90 ár aldri (ein lota). Mælingar hafa sýnt að víða um land er vöxtur á betri vaxtarstöðum 4-5 rúmmetrar á hektara á ári.  Gerum ráð fyrir að árlegur vöxtur á hektara sé 5 rúmmetrar á ári. Þá fást 400 m3 af hráviði á hvern hektara. Ef felldur er skógur á 1500 ha á ári verður heildar hráviðarmagn á Ísland 600 þúsundir m3 árlega.

Hlutverk Mógilsár

Það er hlutverk SR Mógilsár að fylgjast vel með uppvaxandi auðlind innlends trjáviðar og auka gæði ræktunar þannig að hægt sé að nýta sem best öll þau verðmæti sem skógurinn gefur og mun gefa í framtíðinni.

Mógilsá leggur sérstaka áherslu á eftirfarandi þætti á þessu fagsviði:

  • að rannsaka og vakta vöxt og þróun skógarauðlindar landsins
  • að miðla tölulegum upplýsingum um skóga landsins og hvernig auðlindin þróast og hvernig beri að nýta hana á sjálfbæran hátt.
  • að þróa aðferðarfræði við grisjun og umhirðu skóga til að auka framtíðarverðmæti skógarins.
  • að leiðbeina um sjálfbæra nýtingu á auðlindinni í samstarfi við hagsmunaraðila
  • að miðla niðurstöðum rannsókna á nýtingu íslenskra viðarafurða.
  • að sinna rannsóknum sem tengjast gæðum íslensks viðar.
  • að sinna rannsóknum á ræktun jólatrjáa