Skógur og samfélag

Skógur og samfélag

Starfsmenn ábyrgir fyrir fagsviðinu

Þorbergur Hjalti Jónsson

Aðrir starfsmenn í verkefnum tengdu fagsviðinu

Aðalsteinn Sigurgeirsson og Ólafur Eggertsson

Tengiliður í fagráði

Brynjólfur Jónsson, Skógræktarfélag Íslands

Almennt um fagsviðið

Þetta fagsvið fjallar um fjölbreytt samspil skóga og samfélags. Þannig styður það við faglega ákvarðanatöku í skógrækt á Íslandi og leitast við að skilgreina hvernig skógar og skógrækt geti sem best þjónað samfélaginu í nútíð og um langa framtíð.  

Áhersla er á að auka þekkingu á félagslegum og hagrænum þáttum skógræktar. Fagsviðið leggur áherslu á aukna þekkingu á hagfræði skógræktar, félagsleg gildi skógræktar, stjórnun og stefnumótun í skógræktarmálum og hlutverki skóga og skógræktar fyrir ýmsa þætti samfélagsins, sérstaklega byggðaþróun, útivist og bætta lýðheilsu. Jafnframt leitast fagsviðið eftir að greina viðhorf landsmanna til skógræktar og þróun þeirra.    

Þannig eru viðfangsefni þessa fagsviðs þverfagleg og því ákjósanlegt að leita eftir samstarfi um einstök verkefni við sérfræðinga á viðkomandi sviðum.   

Viðfangsefni

Viðfangsefni skógfræðinnar er að samstilla ráðstöfun mannafla, fjármagns, lands, vistfræðiþekkingar og verkkunnáttu þannig að til verði skógur sem uppfyllir markmið ræktunarinnar. Hlutverk skógræktar á Íslandi er að skapa 1) innlenda viðarauðlind, 2) rækta yndisskóg til útivistar og augnagamans, 3) binda kolefni úr andrúmslofti, 4) hindra jarðvegsrof og gæta vatnsforða landsins og 5) að varðveita skógararfleifð þjóðarinnar og lífríki. Viðfangsefni fagsviðsins er að finna og meta hagkvæmar leiðir til að ná þessum markmiðum og styðja þannig við faglega ákvarðanatöku í skógrækt á Íslandi.

Hlutverk Mógilsár

Það er hlutverk Rannsóknastöðvar Skógræktarinnar á Mógilsá að afla og miðla vísindalegra og faglegra gagna varðandi hagkvæma skógrækt og hvernig skógar og skógrækt geti sem best þjónað samfélaginu í nútíð og um langa framtíð.

  • Meta hagkvæmni mismundandi skógræktarleiða
  • Meta verðmæti skóga
  • Meta samfélagsleg áhrif skógræktar
  • Rannsaka og þróa leiðir til að meta núvirði langtímafjárfestingar í skógrækt sem þjónar fyrst og fremst komandi kynslóðum