Skógur og loftslagsbreytingar

Starfsmenn ábyrgir fyrir fagsviðinu

Arnór Snorrason

Aðrir starfsmenn í verkefnum tengdu fagsviðinu

Björn Traustason, Bjarki Þór Kjartansson, Edda S. Oddsdóttir og Ólafur Eggertsson

Tengiliður í fagráði

Jón Geir Pétursson, umhverfisráðuneytinu

Almennt um fagsviðið

Loftslagsbreytingar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda eru hnattrænt viðfangsefni. Því hafa ríki heims tekið saman höndum í þeirri baráttu sem nú á sér stað. Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó árið 1992 var Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar undirritaður, m.a. af íslenskum stjórnvöldum. Með honum eru iðnríki skuldbundin til þess að gera áætlanir og grípa til aðgerða sem miða að takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Meginmarkmið samningsins er að halda styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu innan þeirra marka að komið verði í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfinu af mannavöldum.

Bókun við Rammasamning Sameinuðu þjóðanna var samþykkt í Kyoto árið 1997. Samkvæmt Kyoto-bókuninni skuldbinda ríki í viðauka I (iðnríkin, þ.m.t. Ísland) sig til þess að minnka losun gróðurhúsalofttegunda í heild um 5,2% á tímabilinu 2008–2012, miðað við útstreymi þeirra árið 1990. Markmiðum má ná með: 1) Minnkun losunar, 2) bindingu kolefnis úr andrúmslofti, m.a. með skógrækt og landgræðslu og 3) kaupum á heimildum eða þátttöku í loftslagsvænum verkefnum í öðrum ríkjum. Nú er unnið að nýju samkomulagi sem taki við af Kyoto-bókuninni eftir árið 2012 og er áætlað að það náist í Kaupmannahöfn í desember 2009 (COP15) 

Skógar gegna mikilvægu hlutverki í baráttunni gegn lofslagsbreytingum. Í skógum eru veruleg tækifæri í bindingu kolefnis með aukinni ræktun og bættri umhirðu. Einnig veldur eyðing skóga um 20% af allri losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið. Sjálfbær notkun á skógarauðlindinni við framleiðslu á vörum og orku í staðinn fyrir framleiðslu sem byggir á brennslu jarðefnaeldsneytis er líka mikilvægur þáttur.

Einnig er ljóst að loftslagsbreytingar munu hafa áhrif á skóga, eins og aðrar lífrænar náttúruauðlindir, m.a. vegna hlýnunar, aukinnar tíðni fárviðra og nýrra skaðvalda. 

Mikilvægt að unnið sé skipulega að öflun vísindalegra gagna varðandi möguleika skógræktar sem loftslagsaðgerðar og varðandi aðlögun skóga að loftslags-breytingum.  

Gera þarf grein fyrir skógum í loftslagsbókhaldi Íslands sem skilað er til Sameinuðu þjóðanna. Einnig eru íslensk stjórnvöld skuldbundinn skv. grein 3.3. í Kyoto-bókuninni að telja fram bindingu CO2 í nýskógrækt og losun við skógeyðingu af mannavöldum miðað við viðmiðunarárið 1990. Skiptir sú binding miklu fyrir möguleika Íslands að uppfylla skuldbindingar í loftslagsmálum.

Samningar og stefnumótun tengd viðfangsefni fagsviðs um loftslagsmál:

  • Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, (Ríó de Janeiró 1992).
  • Kyoto-bókunin, gerð 11. des. 1997. Aðild Íslands: 23. maí 2002. Þingskjal 1100 á 127. löggjafarþingi 

Hlutverk Mógilsár

Það er hlutverk Rannsóknastöðvar Skógræktarinnar á Mógilsá að afla og miðla vísindalegra gagna varðandi tengsl skóga og loftslagsmála, og að vera stjórnvöldum til ráðgjafar þau mál.

  • að afla vísindalegra gagna og miðla upplýsingum varðandi möguleika skógræktar sem loftslagsaðgerðar (mitigation)
  • að safna og miðla tölulegum upplýsingum um skóga fyrir lofslagsbókhald stjórnvalda
  • að miðla upplýsingum og eiga samstarf við íslensk stjórnvöld vegna viðræðna um loftslagsamninga
  • að afla vísindalegra gagna varðandi aðlögun skóga að breyttu loftslagi (adaptation) (tengsl við fagsvið um erfðamál og vistfræði)