Nýræktun skóga og skjólbelti

Starfsmenn ábyrgir fyrir fagsviðinu

Aðrir starfsmenn í verkefnum tengdum fagsviðinu

Aðalsteinn Sigurgeirsson

Tengiliður í fagráði

Valgerður Jónsdóttir, Norðurlandsskógum

Almennt um fagsviðið

Með aukinni skógrækt undanfarna áratugi hefur þörfin á auknu eftirliti með skógarplöntum farið vaxandi. Nauðsynlegt er að tryggja að afföll verði sem minnst eftir gróðursetningu til þess að draga úr kostnaði og tryggja sem bestan árangur við nýskógrækt.

Að ósk Skógræktar ríkisins var á sínum tíma skipuð nefnd til að fjalla um stefnumótun í skógrækt og er henni ætlað að vinna að fjórum megináherslum þar sem m.a. verður fjallað um:

 • Framtíðaruppbyggingu skógarauðlinda á Íslandi
 • Viðarframleiðslu skóga
 • Félagslega þætti, s.s. borgarskóga, útivist og lýðheilsu
 • Verndarhlutverk skóga, s.s. jarðveg, vatn, loftslag og skjól

Verndun birkiskóga, ræktun nýrra skóga (lög um landshlutaverkefni í skógrækt), almennt aðgengi að skógum, nýskógrækt á rýru og rofnu landi (m.a. Hekluskógar) eru allt dæmi um stefnumótun í nýskógrækt.

Skógarplöntur

Á Íslandi eru notaðar aðrar tegundir og önnur kvæmi trjáa en gerist og gengur í nágrannalöndunum. Hér ríkja aðrar umhverfisaðstæður hvað varðar veðurfar og daglengd en þessi atriði hafa mikil áhrif á vöxt og þroska plantna, þannig að ekki er hægt að heimfæra rannsóknarniðurstöður erlendis frá í öllum tilfellum. Rannsóknir á sviði plöntugæða, s.s. frostþolsprófanir og aðferðir varðandi gæðamat eru aðkallandi þar sem frysting sem yfirvetrun er að riðja sér til rúms hérlendis. 

Ræktunartækni í skógarplöntuframleiðslu hefur þróast talsvert á síðustu árum á Íslandi, þó hefur þróunin ekki fylgt því sem gerist í nágrannalöndum okkar sem þróuðust eru á þessu sviði, t.d. Svíþjóð. Fáir framleiðendur stunda skógarplöntuframleiðslu sem aðalræktun sem hefur leitt til þess að framleiðslan skógarplantna í landinu er mjög viðkvæm fyrir breytingum, t.d. í mannahaldi.  

Gróðursetningar

Stórfelldar gróðursetningar á vegum bænda hafa ekki verið stundaðar nema skamman tíma í flestum landshlutum. Fjölmargir bændur sem stunda skógrækt hafa ekki þekkingu eða reynslu á skógrækt. Vinnubrögð við gróðursetningu eru afgerandi varðandi lifun og árangur í skógrækt. 

Mismunandi plöntugerðir og aðferðir við undirbúning lands geta einnig verið afgerandi varðandi lifun nýgróðursetninga og viðgang skógarins. Rannsóknir á plöntugerðum og undirbúningsaðferðum er nauðsynlegt að efla.

Úttektir hafa sýnt að afföll í gróðursetningum á landsvísu eru meiri en ásættanlegt er, nauðsynlegt er að kanna ástæður affalla og þróa leiðir sem geta bætt lifun í nýgróðursetningum.

Úttektir vorið 2009 gefa til kynna mikil afföll af frystum skógarplöntum. Nauðsynlegt er að kanna orsakir þessara affalla. 

Skjólbelti

Skjólbeltarækt getur þjónað margþættu hlutverki. Auk þess að vera skjólgjafi fyrir búfé auka skjólbelti uppskeru og geta stýrt snjósöfnun. Með aukinni kornrækt ætti áhugi á skjólbeltarækt að aukast. Mjög litlar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum skjólbelta og uppskeruaukningu hérlendis. Tegundanotkun og uppbygging skjólbelta hafa ekki verið skoðuð markvisst. Nauðsynlegt er að bæta úr því.

Hlutverk Mógilsár

Það er hlutverk Rannsóknastöðvar Skógræktarinnar á Mógilsá að afla vísindalegra gagna varðandi nýræktun skóga og skjólbelta og miðla upplýsingum til skipulags- og framkvæmdaraðila, landnotenda og annarra sem þurfa á þeim að halda, einkum hvað varðar:

 • Að réttar tegundir og kvæmi séu í notkun með aðlögun skóga að breyttu loftslagi í huga (tengsl við fagsvið um erfðamál)
 • Gæði skógarplantna
 • Gróðursetningar og jarðvinnslu
 • Gerð skjólbelta og áhrif þeirra á aðra ræktun

Áherslur fagsviðs

 • Frostþol – frostþolsprófanir
 • Gæðaprófanir
 • Jarðvinnsla – plöntugerðir
 • Áburðargjöf – magn/tímasetning
 • Skjólbelti – áhrif á uppskeru