Ræktað skóglendi á Íslandi

Íslenskur nytjaskógur á vori. Mynd: Pétur Halldórsson.

Gagnagrunnur fyrir ræktaða skóga á Íslandi nær yfir allt kortlagt skóglendi á landinu. Þróun og viðhald gagnagrunnsins fer fram við Rannsóknastöð skógræktar Mógilsá. Gagnagrunnurinn byggist á kortlagningu skógarreita frá ýmsum aðilum og þeirra stærstir eru Skógræktin og skógræktarfélögin. Ýmsir aðrir leggja til gögn eins og Hekluskógar, Landgræðsla ríkisins og sveitarfélög. Eftir standa skógræktarreitir á vegum einkaaðila sem mikið til hafa verið kortlagðir af starfsmönnum Rannsóknastöðvar Skógræktarinnar á Mógilsá. 

Gagnagrunnurinn hefur verið samræmdur fyrir alla þá sem vinna að landupplýsingaskráningu skóglendis á Íslandi og hefur verið unnin fitjuskrá fyrir skógrækt sem er leiðarvísir hvernig byggja skal upp töflugagnagrunn fyrir kortlagningu á skógi.

Á hverju ári berast nýjar upplýsingar um kortlagningar skógræktarsvæða fyrir gróðursetningar hvers árs og er þeim bætt inn í samræmda gagnagrunninn fyrir skógrækt á Íslandi.

Skráðar eru upplýsingar um tegund plantna, ár gróðursetningar, hæð og aldur skóglendis, auk fleiri upplýsinga.