Landupplýsingar eru ríkur þáttur í starfi Skógræktarinnar og er unnið með hin ýmsu landupplýsingagögn þvert á svið stofnunarinnar. Innan skógarauðlindasviðs eru unnar skógræktaráætlanir og framkvæmdaskráningar sem skráðar eru í landfræðilega gagnagrunna auk þess sem umhirðuáætlanir og -framkvæmdir eru sívaxandi þáttur í starfi stofnunarinnar, þar sem landupplýsingar eru sömuleiðis skráðar. Innan samhæfingarsviðs eru landupplýsingar notaðar við skipulagsmál og við gerð landskipulagsstefnu.

Landupplýsingar hafa lengi verið ríkur þáttur í starfi rannsóknasviðs Skógræktarinnar. Þar er m.a. starfrækt viðamikið verkefni sem nefnist Íslensk skógarúttekt (ÍSÚ) en landupplýsingar eru grundvöllur þess verkefnis. Á rannsóknasviði hafa verið þróaðir landsþekjandi gagnagrunnar fyrir ræktað skóglendi og náttúrulegt birki á Íslandi sem byggðir eru upp eftir fitjuskrá í skógrækt. Þar að auki eru landupplýsingar notaðar í ýmsum rannsóknarverkefnum. Skógræktin hefur haldið úti vefsjám um nokkurt skeið þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um ýmis landupplýsingagögn á auðveldan hátt.

Landfræðilegur gagnagrunnur yfir skóglendi á Íslandi sýnir allt kortlagt ræktað og náttúrulegt skóglendi landsins, en hann þróun og viðhald hans fer fram á Rannsóknasviði Skógræktarinnar. Gagnagrunnurinn er þróaður í ArcGIS, landfræðilegum upplýsingakerfum, og byggist á flákum sem gefa til kynna staðsetningu og umfang skóglendisins. Á bak við hvern fláka er töflugagnagrunnur með upplýsingum um flatarmál skóglendis, tegund skóglendis, hæð og aldur.

Með því að smella á tengla hér að neðan er hægt að nálgast kort yfir ræktuð og náttúruleg skóglendi á Íslandi:

 Hægt er að nálgast grunngögnin hjá sérfræðingi rannsóknasviðs, Birni Traustasyni.

Ritaðar hafa verið greinar um gagnagrunninn þar sem nálgast má frekari upplýsingar um gagnagrunninn:

Náttúrulegir birkiskógar og birkikjarr

Skilgreining á birkiskógi er að trén sem skógurinn samanstendur af sé að lágmarki 2 m á hæð fullvaxta. Lægra birki flokkast sem birkikjarr. Upplýsingum um náttúrulega birkiskóga og birkikjarr var aflað í þremur birkiúttektum. Fyrstu tvær úttektirnar fóru fram árin 1972-1975 og 1987-1991. Í fyrstu úttektinni var birki kortlagt ofan á loftmyndir og upplýsinga aflað um krónuþekju og hæð. Í annarri úttekt voru gerðar frekari greiningar á birkilendum og kort voru hnituð inn og gögnum varpað í ISNET hnitakerfið.

Tafla sem sýnir staðal fyrir landfræðilegar upplýsingarÁrið 2006 voru gögnin lagfærð, stað­setning fláka var leiðrétt og ýmis töflugögn sem aflað var í birki­úttekt­unum voru tengd við flákana. Árið 2008 voru gögnin flutt inn í nú­ver­andi gagna­grunn þar sem settar voru inn upp­lýsingar um meðal­hæð birki­trjáa í flákum. Gagna­grunn­ur­inn var byggður upp á grund­velli landf­lokkunar­kerfis CORINE og staðals fyrir landfræði­legar upp­lýs­ing­ar sem hér má sjá til hægri.

Síðasta birkiúttektin fór fram árin 2010-2014. Um er að ræða heildar­kortlagningu á öllu náttúrulegu birki á Íslandi, þar sem útbreiðsla var kortlögð og skráðar upplýsingar um hæð, krónuþekju og aldur birkis. Þessi vinna er grundvöllur að áframhaldandi vöktun á náttúrulegum birkiskógum landsins innan verkefnins Íslenskrar skógarúttektar. Þar eru reitir innan birkiskóganna heimsóttir á 10 ára fresti og fylgst með breytingum á vexti og viðgangi skóganna.

Ræktað skóglendi

Ræktuðu skóglendi má skipta í þrjá meginflokka: laufskóga, barrskóga og blandskóga. Haldið er utan um landupplýsingagögn um allt ræktað skóglendi í einum landsþekjandi gagnagrunni. Vinna við gagnagrunninn hófst árið 2003 í tengslum við verkefnið Íslenska skógarúttekt og var í upphafi safnað saman flákum þar sem upplýsingar um gróðursettar trjáplöntur koma fram, svo sem tegund og gróðursetningarár. Í grunninum eru flákar frá öllum þeim aðilum sem sjá um skráningar í skógrækt á Íslandi, auk þess sem starfsmenn Íslenskrar skógarúttektar skrá niður alla ókortlagða skógarreiti á ferð sinni um landið. Árið 2008 var hafist handa við að byggja upp gagnagrunn fyrir ræktað skóglendi á grundvelli landflokkunarkerfis CORINE og Fitjuskrá fyrir landfræðilegar upplýsingar, sjá hér.

Hlutverk rannsóknasviðs

Það er hlutverk Mógilsár, rannsóknasviðs Skógræktarinnar, að reka landfræðileg upplýsingakerfi með gögnum um skóglendi á Íslandi, afla stöðugt nýrra gagna, miðla upplýsingunum og beita nýjustu tækni á þessu sviði við bæði upplýsingasöfnun, geymslu og miðlun.