Skóglendisvefsjá

Auðveld leið til að skoða skóglendi á Íslandi með myndrænum hætti

Gagnvirk kort sem sýna allt skóglendi á Íslandi, frá birkikjarri til ræktaðra skóga.

Á vefsjánni sem sýnir skóglendi á Íslandi eftir sveitarfélögum er auðvelt að átta sig á útbreiðslu skóga í hverju sveitarfélagi fyrir sig. M.a. má sjá hversu langt hvert sveitarfélag er komið í átt að því markmiði að ná 5% skógarþekju á láglendi.

Vefsjárnar sem hér eru birtar gefa góða sýn yfir skóga og kjarr á Íslandi. Á þeim má sjá útbreiðslu náttúrulegs birkis og ræktaðra skóga á landinu en einnig greina upplýsingarnar nánar og sjá flatarmál skóga eftir sveitarfélögum.

Skóglendisvefsjár

Nánar um vefsjárnar

Á árunum 2010 til 2014 fór fram endurkortlagning náttúrulegs birkis á Íslandi og lauk þeirri kortlagningu haustið 2014. Á vefsjánni er skilið á milli fullvaxta birkikjarrs og birkiskóga, þ.e. hvernig birkið lítur út þegar fullum vexti er náð. Skilgreining á birkiskógum miðast við að meðalhæð í kortlögðum reit nái tveim metrum fullvaxta, en meðalhæð birkikjarrs er lægra en tveir metrar fullvaxta.

Ræktaðir skógar eru kortlagðir á hverju ári. Gögn um gróðursetningar hvers árs eru sett inn í samræmdan gagnagrunn þar sem ýmsar upplýsingar eru skráðar.

Í vefsjánum er skóglendi á Íslandi flokkað eftir sveitarfélögum. Þegar smellt er á t.d. fláka fyrir birkikjarr kemur flatarmál birkikjarrsins upp fyrir það sveitarfélag sem birkikjarrið tilheyrir. Það sama á við um birkiskóga og ræktað skóglendi.

Landupplýsingagögn og kort yfir ræktaða skóga og náttúrulegt birki eru aðgengileg HÉR. Ef óskað er eftir frekari upplýsingum um gögnin skal hafa samband við Björn Traustason, umsjónarmann gagnanna, bjorn@skogur.is

Vefsjárnar og landupplýsingagögnin eru í umsjón Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá. Vefsjáin er byggð á ESRI-hugbúnaði og eru myndgögnin lagskiptar gervitunglamyndir með mismunandi upplausn eftir mælikvarða.

Ábendingar og lagfæringar vel þegnar

Markmiðið er að vefsjárnar verði sem áreiðanlegastar. Allar ábendingar um lagfæringar á þeim upplýsingum sem settar eru fram í vefsjánum eru því mjög kærkomnar og sömuleiðis upplýsingar um þau skóglendissvæði sem ekki kunna að finnast í vefsjánum. Mjög gott er að fá upplýsingar um ókortlagða skógræktarreiti. Þó þarf reiturinn að ná hálfum hektara til að verða hluti af gagnagrunninum. Þrátt fyrir að birkikortlagningu sé lokið er mögulegt að til séu náttúrlegir birkireitir á fáförnum svæðum inn til dala og upp til fjalla sem ekki hafa verið kortlagðir. Við tökum upplýsingum um slíka reiti fagnandi. Greinargóð lýsing á viðkomandi svæði kemur sér vel og ekki er verra ef nákvæm staðsetning fylgir, hvort sem það er rissað inn á kort, eða það sem enn betra er, ef GPS-staðsetningarhnit fylgir.

Vinsamlegast sendið upplýsingar um skóglendi eða leiðréttingar á netfangið bjorn@skogur.is.

Ath! Dálitla stund getur tekið að hlaða vefsjánum inn í fyrsta sinn.