Vantar þig jólatré?

Komdu í skóginn

Þú getur fengið íslenskt jólatré og jafnvel sótt jólatréð þitt sjálf(ur) í íslenskan skóg í öllum landshlutum á aðventunni.

Æ fleiri fjölskyldur líta á það sem ómissandi þátt í jólaundirbúningnum að fara í skóg og fella sitt eigið tré þar sem slíkt er í boði. Mynd: Pétur Halldórsson.

Skógræktin, skógræktarfélög og fleiri bjóða fólk velkomið í skógana fyrir jólin til að velja rétta jólatréð. Slík ferð er orðin fastur liður í jólaundirbúningi margra. Vert er að benda á viðburðasíðu Skógræktarfélags Íslands sem uppfærð er reglulega með upplýsingum um viðburði á aðventunni.

Hvort hljómar skemmtilegra og heilbrigðara, að fara út í skóg og ná í ferskt og ilmandi tré eða standa í biðröð í verslun og bíða eftir að fá að borga eftirlíkingu af tré? Veljum lifandi íslenskt tré! Mynd: Pétur Halldórsson.


Austurland

Skógræktarfélag Austurlands býður almenningi að höggva sér tré í Eyjólfsstaðaskógi á Völlum sunnudaginn 17. desember kl. 12-15.

Jólakötturinn, jólamarkaðurinn árlegi, sem haldinn er í Barra, Valgerðarstöðum í Fellum, verður haldinn 16. desember frá kl. 12-16. Þar verða til sölu jólatré og ýmsar skógarafurðir, spennandi jólagjafir, handverk, jarðávextir og ljúffengi hátíðarmaturinn svo nokkuð sé nefnt. Ljúfir tónar og að vanda ketilkaffi að hætti skógarmanna.

Suðurland

Skógræktin hefur opið í Haukadalsskógi dagana 9.-10. og 16.-17. desember kl. 11-16 fyrir fólk sem vill höggva sitt eigið jólatré. Verðið er óbreytt frá því í fyrra:

  • Tré að tveggja metra hæð - 5500 kr.
  • 2-3 metra há  tré - 6500 kr.
  • Tré hærri en þrír metrar - 7500 kr.
Í skóginum má finna stafafuru, rauðgreni og blágreni. Einnig verða seldar jólagreinar og tröpputré. Boðið verður upp á ketilkaffi og piparkökur.

Skógræktarfélag Árnesinga er með jólatrjáasölu að Snæfoksstöðum helgarnar 9.-10. og 16.-17. desember, auk dagana 21.-23. desember kl. 11-16.

Skógræktarfélagið Mörk er með jólatrjáasölu í Stóra-Hvammi, Fossi á Síðu, laugardaginn 17. desember kl. 13-15.

Skógræktarfélag Rangæinga er með jólatrjáasölu í Bolholtsskógi sunnudaginn 17. desember kl. 13-16.

Norðurland

Skógræktin á Vöglum Fnjóskadal heldur jólamarkað í Vaglaskógi laugardaginn 9. desember. Þar verða til sölu jólatré, greinar, eldiviður og fleira úr Vaglaskógi, þingeyskt handverksfólk selur ýmsan varning og skólabörn í Stórutjarnaskóla veitingar til ágóða fyrir ferðasjóð sinn. Markaðurinn hefst klukkan 13 og stendur til kl. 17.

Hóladeild Skógræktarfélags Skagfirðinga verður með jólatréssölu í tengslum við aðventuhátíð í Hóladómkirkju sem hefst kl. 14 sunnudaginn 10. desember. Kvenfélag Hólahrepps stendur fyrir ýmsum skemmtilegum viðburðum.


Skógræktarfélag Austur-Húnvetninga er með jólatrjáasölu í Gunnfríðarstaðaskógi helgina 16.-17. desember kl. 11-15.

Skógræktarfélag Eyfirðinga býður allt fólk sem vill fella sitt eigið jólatré velkomið tvær helgar í desember í Laugalandsskóg á Þelamörk. Tréð kostar 7.000 kr. óháð stærð en 6.500 fyrir félagsmenn. Í kaupbæti er ketilkaffi og kakó, jafnvel piparkökur ef vel liggur á skógarfólki. Í Laugalandsskógi er aðallega stafafura en einnig má finna stöku rauðgreni og jafnvel blágreni. Opið verður 9.-10. og 16.-17. desember frá klukkan 11 til 15.

Skógræktarfélag Skagfirðinga er með jólatrjáasölu í Hólaskógi og skógarreit við Varmahlíð sunnudaginn 17. desember kl. 12-15.

Vesturland

Skógræktin á Vesturlandi er með jólatrjáasölu í Selskógi í Skorradal helgina 16.-17. desember kl. 11-16.

Skógræktarfélag Akraness er með jólatrjáasölu í Slögu sunnudagana 3., 10., og 17. desember, kl. 12-15.

Skógræktarfélag Borgarfjarðar er með jólatrjáasölu í Reykholti laugardaginn 9. desember kl. 11-15 og í samvinnu við Björgunarsveitina Heiðar í Grafarkoti helgina 16.-17. desember kl. 11-16.

Skógræktarfélag Eyrarsveitar er með jólatrjáasölu í Brekkuskógi og Eiðisskógi frá 17. desember.

Vestfirðir

Sunnudaginn 10. desember býðst fólki að koma í skógarreit Skógræktarfélags Dýrafjarðar að Söndum og höggva sér jólatré. Í boði eru sitkagreni og stafafura sem búið verður að merkja, gestir þurfa að hafa sög meðferðis en einnig er í boði að klippa skrautgreinar. Hægt verður að eiga huggulega fjölskyldustund á milli klukkan 13 og 15 og boðið upp á heitt kakó, ketilkaffi og piparkökur á staðnum.

Komið er að svæðinu af Brekkuhálsi, sem telst frekar til vegslóða en vegar og þarf því að fara varlega á smærri bílum. Hvert tré kostar 5.000 krónur sem þarf að staðgreiða í seðlum.

Skógræktarfélag Ísafjarðar er með jólatrjáasölu í reit ofan Bræðratungu laugardaginn 16. desember kl. 13-15.

Höfuðborgarsvæðið

Skógræktarfélag Garðabæjar er með jólatrjáasölu í Smalaholti laugardaginn 16. desember kl. 12-16.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er með skreytinga- og jólatrjáasölu í Þöll virka daga í desember og helgarnar 9.-10. og 16.-17. desember kl. 10-18.

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar er með jólatrjáasölu í Hamrahlíð við Vesturlandsveg 9.-23. desember, kl. 10-16 um helgar og kl. 12-18 virka daga.

Skógræktarfélag Reykjavíkur er með jólatrjáasölu á Jólamarkaðnum Elliðavatni í Heiðmörk helgarnar 25.-26. nóvember, 2.-3., 9.-10. og 16.-17. desember kl. 12-17 og í Jólaskóginum á Hólmsheiði helgarnar 9.-10. og 16.-17. desember kl. 11-16.